mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppgangur í sæbjúgnaveiðum

27. ágúst 2019 kl. 12:01

Sæbjúgu eru hluti af mataræði fjölmargra Asíubúa. Mynd/IOT

Sæbjúgnaveiðar ekki lengur hliðarbúgrein í Kanada

Sæbjúgu verða ekki lengur hliðarbúgrein hjá kanadíska útgerðarfyrirtækinu Clearwater Seafoods heldur ein verðmætasta tegundin sem fyrirtækið framleiðir. Clearwater, sem er með bækistöðvar á Nova Scotia, hóf sæbjúgnaveiðar úti fyrir störndum Nýfundnalands og Labradors í júní og greindi nýlega frá miklum hagnaði af veiðunum í árshlutauppgjöri.

Clearwater hefur þegar selt allan sæbjúgnaaflann, jafnt veiddan sem óveiddan, að megninu til Kína þar sem eftirspurnin er mikil.

„Þetta eru afar hagnaðardrifnar veiðar og nýjung hjá okkur. Stofninn er sterkur og af miklu að taka. Sæbjúgun skila okkur svipaðri afkomu og allra verðmætustu tegundirnar sem við vinnum,“ segir Ian Smith, forstjóri Clearwater.

Mikill viðsnúningur til hins betra hefur orðið í rekstri fyrirtækisins með innkomu sæbjúganna en fyrirtækið er auk þess stórt í veiðum og vinnslu á humri, snjókrabba og rækju.

7.100 tonna kvóti

Sem kunnugt er geisar nú tollastríð milli Bandaríkjanna og Kína en það virðist lítil áhrif hafa á Kanada. Smith segir að Clearwater hafi selt sjávarafurðir til Kína í yfir tvo áratugi og er með fjölda starfsmanna þar í landi. Hann sér engar breytingar á stöðunni.  43% af allri sölu Clearwater á sæbjúgum er til Asía á fyrri árshelmingi í samanburðri við 39% á sama tíma í fyrra.

Árið 2003 var leyfður heildarafli á sæbjúgum við Nýfundnaland og Labrador 454 tonn. Á þessu ári er kvótinn 7.106 tonn sem er 1.000 tonnum meira en á síðasta ári. Veiðitímabilið stendur yfir frá júní til ársloka. 10-14 bátar stunda þessar veiðar.

Sæbjúgnaveiðar eru stundaðar á átta sérstaklega skilgreindum svæðum á Íslandi, út af Vestfjörðum og Austurlandi og í Faxaflóa. Samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir þetta ár skal afli á þessum svæðum fiskveiðiárið 2019/2020 ekki fara yfir 2.245 tonn. Einnig var lagt til að veiðar utan skilgreindra veiðisvæða séu háðar leyfum til tilraunaveiða.