mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Upplýsingasöfnun möguleg í rauntíma

Guðsteinn Bjarnason
18. janúar 2020 kl. 07:00

Meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru Axel Helgason, fyrrverandi formaður LS, Guðmundur Þórðarson frá Hafró og Páll Snorrason frá Eskju. MYND/Sjávarútvegsráðstefnan

Á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember var sérstök málstofa helguð samstarfi við útgerðina um hafrannsóknir. Hollendingurinn Martin Pastoors sagði mikla gagnasöfnun nú þegar fara fram í veiðum.

Áður en loðnuleit hófst nú í vikunni spruttu upp umræður um það hvort útgerðin ætti að taka þátt í kostnaði við hana. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi veigruðu sér við þátttöku vegna kostnaðar, en samkomulag tókst þó og nú er reiknað með að tvö fiskiskip og jafnvel fleiri taki þátt í leitinni, eins og tíðkast hefur reyndar á undanförnum árum.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu, sem haldin var í nóvember, var sérstök málstofa helguð möguleikunum á því íslensk útgerð yrði virkari þátttakandi í hafrannsóknum. Fulltrúar frá greininni, vísindasamfélaginu og Hafrannsóknastofnun viðruðu þar sjónarmið sín.

Meðal þeirra sem til máls tóku var Guðmundur Þórðarson, sérfræðingur á Hafró, sem sagði langa hefð vera fyrir því að vísindamenn vinni að hafrannsóknum í samstarfi við sjómenn.

Ákveðin tortryggni

Ákveðin tortryggni ríki vissulega meðal vísindamanna í garð rannsókna sem greinin fjármagnar, en reynslan sé samt almennt sú að rannsóknir sem fjármagnaðar hafa verið af greininni hafi verið góð viðbót við opinberar rannsóknir á vegum Hafró eða ICES.

Axel Helgason, fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda (LS), tók einnig til máls og hvatti hafrannsóknarmenn til að nýta sér betur gögn beint úr veiðunum.

Hann sagðist hafa það á tilfinningunni að margt það sé vanrannsakað sem er að gerast í sjónum nálægt ströndum landsins, þar sem smábátar veiða. Sjálfur hafi hann orðið var við breytingar í lífríkinu sem lítið eða ekkert sé fjallað um.

„Strandveiðiflotinn er að veiðum nánast alla daga ársins. Þær upplýsingar sem þar safnast upp hljóta að vera þess virði að þær séu teknar saman,“ sagði Axel.

Einn fyrirlesara var Martin Pastoors frá samtökum evrópskra uppsjávarútgerða, Pelagic Freezer-Trawler Association (PFA). Hann sagði mörg dæmi um samstarf milli útgerða og vísinda nú þegar og nokkur hreyfing væri farin af stað í þá áttina að efla slíkt samstarf um hafrannsóknir af ýmsu tagi.

Hliðarveruleikinn

Hann greindi sérstaklega frá rannsóknum sem gerðar eru í samstarfi við uppsjávarskip á vegum samtakanna. Hann er sjálfur fiskifræðingur, starfaði lengi hjá hollensku hafrannsóknastofnuninni og átti bæði frumkvæðið að og skipulagði þessar rannsóknir.

„Við byrjuðum á þessu vegna þess að þetta var þegar komið í gang. Öll þessi skip voru að mæla mikið af fiski þegar ég kom inn í þetta. Það var nánast eins og að koma inn í hliðarveruleika þar sem þeir voru að safna öllum þessum upplýsingum sem aldrei komust til vísindastofnana,“ sagði Pastoors.

Sjálfur tók hann að sér að miðla á milli og finna leiðir til að fá sjómenn og vísindamenn til að tala saman.

„Við byrjuðum hægt og rólega. Ég var fyrst í samstarfi við tvö skip,“ en árið 2019 var svo komið að öll uppsjávarskip samtakanna taka þátt í þessu samstarfi. Níu útgerðir með samtals 23 skip eiga aðild að samtökunum, „þannig að við erum með fulla dekkun núna á öllum fiskveiðum á öllum veiðisvæðum þar sem þau stunda veiðar.“

Árið 2018 fengust þannig upplýsingar um nærri 500 þúsund tonn af lönduðum fiski og lengdarmælingar voru 240 þúsund.

„Þetta er mikið af upplýsingum sem hægt var að safna saman með mjög einföldum hætti sem kostar nánast ekki neitt,“ sagði hann. „Núna vitum við nákvæmlega hvað er að gerast. Við vitum til dæmis hver er lengdarsamsetning aflans í rauntíma.“

Aðspurður úr sal sagðist Pastoors hafa viljað bregðast við óánægju sem útbreidd hafi verið meðal sjómanna og útgerðarmanna með ráðgjöf vísindamanna. Með því að leita ráða hjá sjómönnum og fá hjá þeim upplýsingar geti þeir komið með eigin hugmyndir um það hvernig bæta megi þekkinguna.