fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppsjávarfiskur fyrir rúma 100 milljarða

14. janúar 2016 kl. 14:35

Makríll.

Alls voru seld um 1,52 milljónir tonna af uppsjávarfiski hjá síldarsamlaginu norska á árinu 2015

Salan hjá síldarsamlaginu norska, Norges Sildesalgslag, nam 6,92 milljörðum á síðasta ári að því er fram kemur á vef síldarsamlagsins. Þetta samsvarar um 102 milljörðum íslenskra króna miðað við skráð gengi norsku krónunnar í dag. Veltan hjá síldarsamlaginu jókst um 450 milljónir norskar frá árinu 2014. Það er einkum löndun á uppsjávarfiski til fiskimjölsframleiðslu sem skýrir aukninguna.

Alls voru seld um 1,52 milljónir tonna af uppsjávarfiski hjá síldarsamlaginu á árinu 2015 sem er lítilsháttar aukning frá árinu áður. Þar af var 810 þúsund tonnum landað til manneldisvinnslu en 713 þúsund tonnum til bræðslu. Þetta er 130 þúsund tonna aukning í bræðslufiski en um 101 þúsund tonna samdráttur í manneldisvinnslu.

Norsk skip lönduðu rétt rúmum milljón tonnum í Noregi að verðmæti 4,9 milljónir króna (rúmir 72 milljarðar ISK). Þar af fóru 579 þúsund tonn til manneldisvinnslu og 487 þúsund tonn til bræðslu. Norsk skip lönduðu til viðbótar 270 þúsund tonnum erlendis fyrir 665 milljónir króna árið 2015 (9,8 milljarða ISK). Aukningin þar er 20 þúsund tonn. Hér er aðallega um að ræða kolmunna og einnig loðnu sem landað var á Íslandi.

Erlend skip seldu 190 þúsund tonn af uppsjávarfiski í Noregi, þar af eru 144 þúsund tonn makríll. Heildarverðmæti var 1,35 milljarðar (19,9 milljarðar ISK) og er það samdráttur frá árinu áður.

Makríllinn skilaði mestum verðmætum allra uppsjávartegunda. Í heild fóru 386 tonnum af makríl í gegnum sölukerfi síldarsamlagsins á árinu 2015 að verðmæti 3,22 milljarðar (47,5 milljarðar ISK). Meðalverð á makríl var 8,37 krónur á kíló (123,33 ISK) en var 7,55 krónur árið 2014.