sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppsjávarskipin fá að veiða 105 þúsund tonn af makríl

12. apríl 2012 kl. 12:00

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Frystitogararnir fá að veiða 31 þúsund tonn. Heildarkvótinn er 145 þúsund tonn

Uppsjávarskipin fá að veiða um 105 þúsund tonn af makríl á árinu 2012 af 145 þúsund tonna kvóta Íslendinga eftir að 2% vatnsinnihald hefur verið dregið frá lönduðum afla, samkvæmt nýrri reglugerð um markrílveiðar frá sjávarútvegsráðuneytinu. Fiskistofa hefur auglýst eftir umsóknum um leyfi til makrílveiða hjá skipum í öðrum flokkum eða pottum.

Nánar tiltekið kveður reglugerðin á um að 105.057 lestum af makríl skuli ráðstafað til skipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009, þ.e. til skipa sem stundað hafa hefðbundnar veiðar á uppsjávarfiski.

31.259 lestum skal ráðstafað til vinnsluskipa, þ.e. frystitogara og annarra skipa sem hafa frystigetu um borð. Vinnslukipum skal skipt í þrjá flokka eftir stærð 800 BT, 800-2.400 BT og 2.400 BT og yfir. Skylt er vinnsluskipum að vinna og frysta allan sinn afla um borð.

8.066 lestum skal ráðstafað til skipa sem ekki frysta afla um borð enda hafi útgerðir þeirra sýnt fram á að 70% af aflanum að minnsta kosti verði unnin í landi. Hér er skipum skipt í tvo stærðarflokka.

Loks er 845 lestum ráðstafað til skipa sem stunda makrílveiðar með línu eða handfærum.

Reglugerð nr. 329/2012 um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2012 má nálgast hér.