miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppsjávarvinnslan stóriðja á Vopnafirði

2. ágúst 2011 kl. 10:11

Makríll á færibandi hjá HB Granda á Vopnafirði. (Mynd á vef HB Granda/ Jón Sigurðarson).

Nýr blásturfrystir hefur skipt sköpum í framleiðslunni.

Nú vinna um 120 manns í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði og því er óhætt að fullyrða að uppsjávarvinnslan sé sannkölluð stóriðja í byggðarlaginu. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra skiptir það sköpum fyrir vinnsluna og þá einkum hvað varðar vinnslu á makríl að fyrr í sumar var tekinn í notkun nýr og öflugur blásturfrystir í uppsjávarfrystihúsinu.

,,Tilkoma blásturfrystisins gerir okkur kleift að frysta stærsta makrílinn, sem við hefðum ella ekki getað unnið með góðu móti, og afurðirnar eru mjög flott vara sem fallið hefur kaupendum vel í geð. Ef við hefðum ekki haft blásturfrystinn þá hefðum við sömuleiðis átt í erfiðleikum með að uppfylla vinnsluskylduna á makríl en samkvæmt reglugerð ráðuneytisins þá þurfum við að vinna a.m.k. 70% makrílaflans til manneldis,“ segir Magnús Róbertsson á heimasíðu fyrirtækisins.

Því má bæta við þetta að Faxi RE hefur verið í breytingum en vonir standa til að skipið komist til veiða einhvern næstu daga. Ingunn AK og Lundey NS hafa séð um hráefnisöflun fyrir frystihúsið í sumar og þegar Faxi fer til veiða ætti að vera tryggt að hægt verði að halda uppi samfelldri vinnslu á Vopnafirði til vertíðarloka, segir á heimasíðunni.