laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Upptökuhugmyndirnar eru "skipbrot heilbrigðrar skynsemi"

21. apríl 2009 kl. 12:55

segir Guðmundur Smári Guðmundsson útgerðarmaður og fiskverkandi í Grundarfirði

Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði, er  vægast sagt ósáttur við þær hugmyndir að taka árlega 5% aflaheimilda af sjávarútvegsfyrirtækjum. Hann telur að verði þessar hugmyndir að veruleika  séu þær til marks um „skipbrot heilbrigðrar skynsemi.“

„Það er víða svo, m.a. hér á Grundarfirði, að það er samnefnari á milli sjávarútvegsfyrirtækja og fólksins. Þetta er ekkert einkamál útvegsmanna og stjórnmálamanna. Þetta snýst fyrst og síðast um fólkið sem starfar í sjávarútvegi. Að stilla þessum hugmyndum upp sem einhvers konar sátt og réttlætismáli er út hött.  Þessar hugmyndir gera ekkert annað en að ala á óöryggi og eru stórt skref aftur á bak,” segir Guðmundur Smári í viðtali á vef LÍÚ.

Guðmundur Runólfsson hf. var stofnað árið 1947 og hefur verið kjölfestan í atvinnulífi Grundfirðinga  í rúm 60 ár.  Guðmundur Smári segist hafa glímt við margskonar áföll í rekstrinum en þessar hugmyndir séu hreinræktað skemmdarverk á atvinnugrein sem kostað hefur gríðarlegum fjármunum til hagræðingar.

„Við höfum lent í aflabresti og vandræðum á mörkuðum. Við höfum glímt við sjómannaverkföll, olíuverðshækkanir – og ég gæti haldið áfram. Það sem greinir þessar hugmyndir frá frá hinum er að hér erum við að glíma við pólitíska skemmdarverkastarfsemi í nafni réttlætis og jöfnuðar, sem á ekkert skylt við ábyrgð, atvinnuöryggi eða virðingu fyrir eignum fólks og fyrirtækja.“