þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

USA: Herferð gegn eldisfiski frá Víetnam og Kína

27. október 2010 kl. 14:59

Samtök framleiðenda eldisfisksins catfish í Bandaríkjunum hafa skorið upp herör gegn innflutningi á fiskflökum af þessari tegund frá Kína og Víetnam. Þeir segja að innfluttu flökin séu menguð og innihaldi sýklalyf.

Samtökin vilja að skylt verði að hafa upprunamerki á þessari vöru og krefjast þess af stjórnvöldum að allur innflutningur verði skoðaður.

Þá hafa samtökin látið gera auglýsingar, sem sýndar hafa verið á sjónvarpsstöðvunum CNN og Fox, þar sem áhorfendur eru spurðir hvort þeir viti að aðeins 2% af innfluttum sjávarafurðum í Bandaríkjunum séu skoðuð og fólk hvatt til að standa vörð um heilsu og öryggi fjölskyldu sinnar.

Eldi á catfish í Bandaríkjunum fer aðallega fram í suðurríkjunum og við það starfa um 15.000 manns. Þessu fólki finnst atvinnuöryggi sínu ógnað með innflutningi á ódýrum eldisfiski frá Asíu þar sem vinnuaflskostnaður er aðeins brot af því sem gerist í Bandaríkjunum.