sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningstekjur gætu minnkað um 8 milljarða

25. júní 2009 kl. 15:00

-- ef ýsukvótinn yrði skorinn niður eins og Hafró leggur til

Ætla má að útflutningstekjur vegna ýsuafurða gætu minnkað um 8 milljarða króna ef ýsukvótinn yrði skorinn niður eins og Hafrannsóknastofnunin leggur til. Þetta kemur fram í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Hafrannsóknastofnunin leggur til verulegan samdrátt í ýsuveiðum eins og fram hefur komið. Ráðlagt er að ýsuveiðar takmarkist við 57 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Veiðiráðgjöf fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var 83 þúsund tonn en sjávarútvegsráðherra heimilaði 93 þúsund tonna veiði. Ef farið verður eftir ráðgjöfinni dregst kvótinn saman um 36 þúsund tonn eða 38%.

Ljóst er að slíkur samdráttur í ýsuveiðum yrði verulegur skellur fyrir sjávarútveginn. Fyrir það fyrst má nefna að hver 10 tonn þúsund tonn af ýsu upp úr sjó gætu gefið okkur um 2,2 milljarða króna í útflutningstekjur. Ef veiðar dragast saman um 36 þúsund tonn gæti tekjutapið numið um 8 milljörðum króna.

Ýsuafurðir námu um 12% af útflutningstekjum sjávarafurða á síðasta ári en einstök fyrirtæki og svæði eru misjafnlega háð veiðum og vinnslu á ýsu. Höggið gæti því orðið þungt hjá sumum á meðan aðrir finna lítið fyrir því. Smábátasjómenn missa til dæmis spón úr aski sínum ef ýsukvótinn verður skorinn niður. Þeir hafa veitt um fjórðung ýsuaflans. Einnig munu nokkrar útgerðir í aflamarki, sem eiga hlutfallslega stóran ýsukvóta, finna verulega fyrir samdrættinum. Ýsan er sú tegund sem hefur haldið flestum leiguliðum á floti og samdráttur í ýsuveiðum gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir leigumarkaðinn. Ýsan er einnig ein helsta tegundin sem seld er á fiskmörkuðum innanlands. Sum landssvæði eru háðari vinnslu á ýsu en önnur, svo sem Suðvesturhornið, Suðurlandið og Norðurland eystra.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.