fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningsverðmæti sjávarafurða dróst saman í fyrra

3. júní 2015 kl. 07:00

Ferskur fiskur til útflutnings í gámum.

Fór úr 272 milljörðum króna árið 2013 í 244 milljarða árið 2014.

Árið 2014 var útflutningsverðmæti sjávarafurða 244 milljarðar króna en árið á undan var verðmætið 272 milljarðar. Þetta kemur fram á vef SFS og er vísað í tölur Hagstofunnar. Hér er um töluverða lækkun útflutningsverðmæta að ræða eða um 10%. Þorskurinn er enn okkar verðmætasta tegund og nam verðmæti hans 89 milljörðum króna eða um 36% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári. Útflutningsverðmæti uppsjávartegunda eins og síldar, kolmunna, makríls og loðnu nam samtals 62 milljörðum króna.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða lækkaði milli ára enda minnkaði loðnuaflinn um 350 þúsund tonn. Heildarafli loðnu fór úr 460 þúsund tonnum árið 2013 í 111 þúsund tonn árið 2014. Í ár jókst aflinn á ný, sem kunnugt er. 

Gengi krónunnar hefur einnig styrkst á milli ára um 4,5% bæði gagnvart Bandaríkjadollara og evru. Eins hefur verðvísitala uppsjávarfisks lækkað um 0,5% á milli ára. Úkraína hefur verið stór kaupandi í uppsjávartegundum eins og síld og makríl, en mikilvægir markaðir í Austur-Evrópu hafa verið erfiðir og mikil óvissa ríkir þar, segir á vef SFS.