þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningur skilaði 240 milljörðum

Guðsteinn Bjarnason
21. janúar 2019 kl. 15:00

Verðmæti útfluttra sjávarafurða jókst á ný.

Verðmæti útfluttra sjávarafurða árið 2018 urðu töluvert meiri en árið 2017 en 12 prósentum minni en metárið 2015.

Árið 2018 fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir 240 milljarða króna. Árið 2017 nam útflutningurinn ekki nema 197 milljörðum, sem var óvenju lítið, en það ár setti sjómannaverkfall sitt mark á greinina fyrstu vikur ársins.

Þrátt fyrir óhagstætt gengi miðað við fyrri ár, varð útflutningsverðmæti sjávarafurða í íslenskum krónum árið 2018 því ekki langt undir því sem þekktist á árunum 2011 til 2015, þegar gengið var með allra hagstæðasta mót fyrir útflutningsgreinarnar.

Tæpum tólf prósentum munar á árinu 2018 og metárinu 2015 sem varð sjávarútveginum hagstæðara en áður hafði þekkst, því það ár náði verðmæti útfluttra sjávarafurða hámarki í 272 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar. Í síðustu viku sendi hún frá sér fyrst frá sér tölur um vöruviðskipti við útlönd fyrstu ellefu mánuði ársins 2018, og tveimur dögum síðar birti hún bráðabirgðatölur um vöruviðskipti í desember 2018.

Með því að leggja saman verðmæti útfluttra sjávarafurða fyrstu ellefu mánuðina, sem 218 milljörðum, og bráðabirgðatölu desembermánaðar, sem nam 24 milljörðum, þá fæst þessi heildartala ársins, sem nam 240.124 milljónum króna.

Þá kemur einnig fram í tölum Hagstofunnar að verðmæti útflutts eldisfisks fyrstu ellefu mánuði ársins 2018 hafi numið 11.655 milljónum króna. Að meðtöldum desember gæti útflutningsverðmæti eldisfisks þar með numið eitthvað á 13. milljarð króna. Árið 2017 var fluttur héðan út eldisfiskur fyrir 13.721 milljón króna, sem var met og væntanlega tekjuhæsta árið til þessa.