sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útgerð Þorsteins BA greiddi hæstu meðallaunin 2007

11. nóvember 2008 kl. 12:24

Fiskvon ehf. á Patreksfirði greiddi hæstu meðallaunin í sjávarútvegi á landinu á árinu 2007, samkvæmt nýbirtri úttekt tímaritsins Frjálsrar verslunar, eða 11,2 milljónir króna fyrir ársverkið.

Fiskvon gerir út dragnótabátinn Þorstein BA frá Patreksfirði. 

Næst á eftir kom frystitogaraútgerðin Stálskip í Hafnarfirði en meðallaun þar voru liðlega 9,9 milljónir króna fyrir ársverkið.

Þriðji í röðinni var Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum með 9,3 milljónir að meðaltali, í fjórða sæti var Ocean Direct, útgerð Sæbergs HF, með tæplega 8,9 milljónir króna og Eskja var fimmta í röðinni en þar gerði meðalársverkið sig á 7,8 milljónir króna.

Ekki tæmandi listi

Rétt er að taka fram að listinn yfir hæstu launin er ekki tæmandi því skráning á hann er undir því komin að fyrirtækin sjálf vilji gefa upplýsingar um laun eða yfirleitt vera með í úttekt Frjálsrar verslunar.

Auk þess má nefna að minnstu útgerðirnar eru ekki með í þessari úttekt en hjá ýmsum þeirra kunna að finnast launatölur sem ættu heima á listanum yfir hæstu meðallaun í sjávarútvegi.

Greint er nánar frá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum og hæstu meðallaununum í nýjustu Fiskifréttum og vísað til úttektar Frjálsrar verslunar.