föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útgerðin greiðir rúman milljarð í kolefnisgjald

16. janúar 2011 kl. 10:00

Dragnótaveiðar (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Gjaldið hækkaði um 50% um áramótin

Um áramótin hækkaði kolefnisgjald á eldsneyti um 50% og er gjaldið nú 4,35 krónur á hvern lítra af dísilolíu. Áætlaður kostnaður útgerðarinnar vegna kolefnisgjaldsins í ár er um 1.160 milljónir króna, að því er Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Kolefnisgjaldinu var komið á í upphafi árs 2010 og sagði Sveinn að útgerðin hefði greitt um 870 milljónir vegna þess á árinu 2010. Hann sagði að hér væri um auknar álögur á útgerðina að ræða sem kæmu til viðbótar við aðrar skattahækkanir stjórnvalda. Olíukostnaður er annar stærsti útgjaldaliður útgerðarinnar á eftir launum og sagði Sveinn að kolefnisgjaldið skekkti samkeppnisstöðu útgerðarinnar gagnvart öðrum útflutningsatvinnugreinum. Hann benti einnig á að fiskiskipaflotinn í Noregi væri undanþeginn kolefnisgjaldi þar í landi.