laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útgerðin verði að axla ábyrgð

22. nóvember 2017 kl. 12:08

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, segir ábyrgðin á góðri umgengni við fiskveiðiauðlindina liggi fyrst og síðast hjá útgerðunum í landinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, sagði í viðtali í tíufréttum RÚV í gærkvöldi, að hún líti umfjöllunarefni fréttaskýringarþáttarins Kveiks mjög alvarlegum augum – en í þættinum var fjallað um brottkast og vanmátt Fiskistofu til að gegna lögbundnu hlutverki sínu.

Í frétti RÚV segir Þorgerður að auka beri heimildir Fiskistofu til að herða eftirlit og bregðast við alvarlegum málum þegar þau koma upp. Ábyrgðin á góðri umgengni við fiskveiðiauðlindina liggi hins vegar fyrst og síðast hjá útgerðunum í landinu.

„Þetta er umgengni um okkar sameiginlegu auðlind en ef menn ætla sér að spila á kerfið þá gera þeir það. Kerfið þarf að vera opið og gegnsætt. Útgerðin verður að axla ábyrgð og átta sig á því að þetta er algjörlega ólíðandi. En ég verð líka að segja að ég hef orðið vör við ákveðna tregðu við að auka eftirlit og eftirlitsheimildir Fiskistofu. Ég lagði fram frumvarp í sumar sem sem var hænuskref en gekk ekki eins langt og ég hefði gjarnan kosið. Ef að eftirlitið er með þessum hætti, eins og fram kemur í þættinum, þá er eitthvað að og við þurfum að taka á því,“ sagði Þorgerður Katrín.

Spurð af fréttamanni RÚV hvort útgerðirnar séu orðnar það stórar og valdamiklar að þrýstingur frá þeim séu ástæðu tregðu innan kerfisins við að auka eftirlit, sagðist Þorgerður ekki vilja „sá fræjum tortryggni en það er þannig að útgerðirnar bera ábyrgð, megin ábyrgð á umgengni við auðlindina. Við þurfum að undirstrika þá ábyrgð og þau þurfa að axla hana eins og þingmenn. Við þurfum að fara yfir þessar ábendingar og skoða hvað við getum gert betur.“

Nú stendur yfir fundur í sjávarútvegsráðuneytinu þar sem málefni þáttarins eru rædd – þar verður rætt hvort og hvernig brugðist verður við af hendi yfirvalda.

„Þetta er tvímælalaust eitt af þeim málum sem bíður nýrrar ríkisstjórnar. Þetta er ekki gott ef rétt er,“ sagði Þorgerður að endingu við RÚV í gær.