mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úthafseldið mun koma hingað

Guðsteinn Bjarnason
18. nóvember 2019 kl. 07:00

Jón Kjartan Kjartansson, framkvæmdastjóri fiskeldis hjá Samherja. MYND/Sjávarútvegsráðstefnan

Jón Kjartan Kjartansson segir Íslendinga þurfa að hafa sig alla við til að standa sig í harðnandi samkeppni, meðal annars frá Rússum.

„Ég held að úthafseldi muni koma. Það er búið að ákveða að það komi og það er búið að fjárfesta í því,“ segir Jón Kjartan Kjartansson, framkvæmdastjóri fiskeldis hjá Samherja.

Hann vísaði þar til Noregs þar sem á verið er að þróa og prófa á annan tug úthafseldisverkefna, með mismunandi aðferðum og útfærslum.

„Kannski þrjú af þeim verða okkar framtíðarúthafseldistækni. Þetta er komið og þetta á bara eftir að aukast.“

Í erindi sínu á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku sagði hann tímana í útgerð töluvert breytta frá því fyrir tuttugu árum. Þá var Samherji í frystitogaraútgerð er nú kominn yfir í ísfiskútgerð. Bæði störfin og afurðirnar hafi breyst mikið.

Hann sneri sér síðan að því að ræða framtíðarsýn Framherja og velta því fyrir sér hvar fyrirtækið verði statt eftir næstu tuttugu ár, hvað varðar útgerð, markaðsmál, tækniþróun og fleira.

„Við hugsum um þetta út frá því hvað eru laxagaurarnir að gera, þeir sem eru við hliðina á okkur í hillunum,“ sagði Kristján, en sjálfur er hann á kafi í fiskeldinu og fylgist vel með þróun laxeldismála í Noregi.

Rússarnir koma
„Eldi á laxi í heiminum hefur aukist ótrúlega og við erum algerir dvergar orðnir í samhenginu,“ sagði hann og benti á að Norðmenn stefni að því að auka laxeldi sitt upp í fimm milljónir tonna árið 2050.

„Sintef var tíu ár á undan að spá að það yrðu 500 þúsund tonn í Noregi, það var rétt upp á ár hjá þeim. Þeir voru líka með milljón tonnin rétt. Þannig að ég horfi á þetta með ákveðinni lotningu, ég ætla alla vega ekki að fara að hlæja.“

Hann segir einnig horft til Rússlands í sjávarútvegsmálum. Þar er hröð þróun í fjárfestingum sem hófst í kjölfar viðskiptabanns fyrir nokkrum árum.

„Pútin er bara búinn að ákveða þetta. Það á að fjárfesta í sjávarútvegi.“

Rússar stefni á að verða bestir í framleiðslu matvæla og þaðan megi búast við harðri samkeppni: „Haldið þið ekki að þeir komi inn á markaðinn frábærar vörur?“

Kinkaði kolli
„Við sjáum fyrir okkur að ef við ætlum að lifa þá verðum við á fullu í þessu að taka upp nýja tækni eins og við höfum verið að gera. Þar verður okkar helsta áskorun að manna þessa tækni. Við þurfum fólk til að hafa hæfnina og reynsluna til að keyra þetta áfram. Það er svo skrýtið að þetta gerist ekki af sjálfu sér.“

Hann sagði aflamarkskerfið hafa ýtt af stað þeirri hröðu þróun sem orðið hefur hér á landi í tækni á öllum sviðum í sjávarútvegi.

„Ég held meira að segja að við séum hætt að rífast um það. Það er algjörlega búið að lyfta okkur þangað sem við erum.“

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði, stýrði málstofunni og spurði Jón Kjartan frekar út í áform um úthafseldi. Róbert sagðist hafa grun um að þetta sé þegar komið á teikniborðið hjá Samherja. Ekki var annað að sjá en Jón Kjartan kinkaði lítillega kolli undir þeim orðum.

„Það er alveg ljóst að það er að þróast,“ sagði Róbert þá, „það verða kvíar úti í hafi sem menn sjá ekki og verða nánast eins og olíuborpallar.“