sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úthlutun afla til sértækra aðgerða

5. júlí 2018 kl. 15:39

MYND/HAG

Sjávarútvegsráðherra hefur úthlutað 32.380 tonnum til byggðakvóta, línuívilnunar, strandveiða og annarra sértækra aðgerða.

Úthlutun fiskveiðiársins er nokkru minni en á síðasta ári, en þá var úthlutað 33.145 tonnum upp úr sjó eða alls 26.362 þorskígildistonnum. Nú nemur úthlutunin 32.380 tonnum upp úr sjó eða alls 25.456 þorskígildistonnum.

Línuívilnunin lækkar mest, eða úr 5.700 tonnum upp úr sjó niður í 4.855 tonn.

„Ástæða þessarar lækkunar er fyrst og fremst vegna innbyrðis breytinga á þorskígildum milli tegunda sem skýrist af því að meðalverð á þorski hefur hækkað meira en meðalverð flestra annarra tegunda,“ segir í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. „Auk þessa er byggt á varfærinni spá um uppsjávarafla 2019.“

Þá segir ráðuneytið að þrátt fyrir þessa „lítillegu lækkun á heildarmagni“ verði magn í flestar aðgerðir nær óbreytt á milli ára. 

„Eina undantekningin er magn í línuívilnun, en lækkun þess magns tekur mið af nýtingu línuívilnunar á þessu fiskveiðiári.“

Samkvæmt lögum er 5,3 prósent af heildarafla ráðstafað sérstaklega „til að mæta áföllum, til stuðnings byggðalögum, til línuívilnunar, til strandveiða, til rækju- og skelbóta, frístundaveiðar og til annarra tímabundinna ráðstafana til að auka byggðafestu..“ 

gudsteinn@fiskifrettir.is