fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vægi sjávarafurða eykst í útflutningi

28. september 2012 kl. 14:59

Þorskar.

Sjávarútvegurinn er að skila umtalsvert meiri gjaldeyristekjum en í fyrra, segir í Morgunkorni Íslandsbanka

Á fyrstu átta mánuðum ársins hafa verið fluttar út vörur fyrir rúma 413,3 ma.kr., sem er rúmlega 2% vöxtur frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi, að því er fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka.

Munar hér mestu um þann vöxt sem orðið hefur í útflutningi sjávarafurða á tímabilinu, en á móti hefur útflutningur iðnaðarvara dregist saman í krónum talið, þá einna helst útflutningur áls og álafurða. Er þetta í takti við það sem við höfðum reiknað með fyrr á árinu og er ljóst að sjávarútvegurinn er að skila umtalsvert meiri gjaldeyristekjum en hann gerði í fyrra. Jafnframt er hlutdeild sjávarafurða í heildarvöruútflutningi talsvert meiri en hún var í fyrra, eða um 43% á móti 38%. Á sama tíma hefur hlutdeild áls og álfurða farið úr 42% niður í 36% af heildarvöruútflutningi. Hér spilar verðþróun á þessum afurðum á heimsmarkaði stórt hlutverk, en það sem af er ári hefur álverð að jafnaði verið um 20% lægra m.v. sama tímabil í fyrra en verð sjávarafurða á hinn bóginn um 8% hærra.