þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vænn og vertíðarlegur þorskur að veiðast

Guðjón Guðmundsson
23. febrúar 2019 kl. 07:00

Vésteinn GK er kominn á veiðar á suðvestursvæðinu. MYND/JÓN STEINAR SÆMUNDSSON.

Guðmundur Theódór Ríkharðsson skipstjóri segir að svo virðist sem kominn sé vertíðarblær á veiðarnar.

Vésteinn GK landaði um 20 tonnum af vænum þorski sem fékkst suðvestur af landinu en þetta var fyrsti róður bátsins í langan tíma á þessum slóðum en hann hefur undanfarið róið frá Stöðvarfirði. Guðmundur Theódór Ríkharðsson skipstjóri segir að svo virðist sem kominn sé vertíðarblær á veiðarnar.

Guðmundur Theódór var reyndar ekki á vaktinni þegar Vésteinn landaði þessum afla heldur Gunnar Daníel Ingþórsson. Báturinn var á sjó þegar rætt var við Guðmund en útlit fyrir brælur framundan. Hann segir þetta hafa verið vænan þorsk og vertíðarlegan.

Boltafiskur að veiðast

„Mér skilst að þetta líti mjög vel. Þetta eru boltar og framhaldið lofar góðu. Þetta var búið að vera dálítið með öðrum hætti en áður fyrir austan. Það hefur náttúrulega verið mikil fiskgegnd síðustu ár en þetta var dálítið meiri hittingur núna en samt flottir róðrar. Svo er hver og einn með sínar kenningar á lofti. Lífríkið í hafinu er síbreytilegt og það er það skemmtilega við þessa vinnu að maður gengur ekki að neinu vísu. Við höfðum ekkert orðið varir við loðnu þegar við fórum suður en við vorum að frétta af því að hún væri kominn í togarafiskinn. Svo heyrðum við að það væri eitthvað farið að sjást til loðnu en það er mun minna af henni en oft áður. Það var víst loðna í fiskinum í Sandfellinu. Það vekur vissa von því það verður að vera hringrás í þessu og eitthvað verður þorskurinn að éta,“ segir Guðmundur.

Auk Vésteins gerir Einhamar í Grindavík út Auði Vésteins SU og Gísla Súrsson GK.