mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vakta laxfiska með hlustunarduflum

Svavar Hávarðsson
10. september 2018 kl. 09:25

Seiðum var sleppt í Austurkvísl Elliðaáa eftir merkingu. Hér hlustar Hlynur eftir og staðsetur seiði sem þar dvöldu áður en þau syntu út voginn til sjávar. Mynd/Hlynur

Hafrannsóknastofnun rannsakar möguleg áhrif landfyllingar í Elliðaárósi á göngur laxfiska.

Hafrannsóknastofnun vinnur að því að kanna áhrif fyrirhugaðrar landfyllingar í Elliðaárvogi á  laxa- og urriðaseiði á leið þeirra úr Elliðaám til sjávar. Í voginum voru sett niður tólf hlustunardufl í þessum tilgangi en til þessa hefur takmarkað verið vitað um hvort eða í hversu miklum mæli seiðin nýta það svæði sem fer undir landfyllinguna.

 „Við erum að merkja laxa- og urriðaseiði sem eru á leið sinni til sjávar úr Elliðaám. Merkin senda frá sér hljóðmerki sem hlustunardufl nema og eru  tólf hlustunardufl staðsett í Elliðaárvoginum . Með þessu getum við fylgst með hvar og hvenær seiðin eru staðsett innan vogsins og hvort þau eru að nýta sér svæði sem fyrirhugað er að fari undir landfyllingu fyrir nýtt bryggjuhverfi.  “ segir Hlynur Bárðarson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, einn rannsakenda. Hann bætir við að svipað verkefni er í gangi fyrir seiði sem ganga úr Leirvogsá. 

Hegðun laxaseiða

„Sú rannsókn er sjálfstæð en þar sem við göngum út frá því að hegðun laxaseiða sé svipuð milli vatnakerfa þá nýtast báðar rannsóknirnar til að fá heildarmynd af göngum laxaseiða. Lítið er vitað um göngur og nýtingu sjóbirtings á ósasvæðum og það er spennandi hluti rannsóknarinnar að sjá hvar þeir halda sig yfir sumarmánuðina en sjóbirtingur er aðeins í sjó yfir sumarið og nýtir sér strandsvæði í námunda við sína heimaá. Þessi rannsókn gæti gefið mikilvægar upplýsingar um hvar sjóbirtingur úr þessum tveimur ám heldur sig meðan á sjávardvölinni stendur. Rannsóknir tengdar laxfiskum í Leirvogsá eru einnig viðleitni Reykjavíkurborgar að rannsaka það svæði sem fyrirhugað er að muni verða nýtt í náinni framtíð sem athafnarsvæði Björgunar, en það er mikilvægt við vöktun á umhverfisáhrifum að upplýsingar um umhverfisskilyrði svæðisins liggi fyrir áður en framkvæmdir hefjast,“ segir Hlynur.

Við verkefnin nutu sérfræðingar stofnunarinnar aðstoðar starfsmanna Háskóla Íslands á báti skólans, Sæmundi fróða og Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum sem hefur séð um rannsóknir á seiðastofnum Elliðaáa undanfarin ár. Árið 2001 og 2002 var gerð svipuð rannsókn á farleiðum laxaseiða frá Elliðaám út fyrir Viðeyjarsund en upplausn þeirrar rannsóknar var minni (færri dufl) og notuð voru nær eingöngu eldisseiði við rannsóknina. Tækni við merkingar með hljóðmerkjum hefur verið mjög ör á síðustu árum sem gerir það mögulegt að merkja smærri seiði og úrvinnsla á staðsetningu merkja er mun nákvæmari.

Þrettán hektara uppfylling

Baksvið þessarar rannsóknar er að Elliðaárvogur sem er eitt af lykilsvæðum í áformum borgaryfirvalda í framtíðaruppbyggingu borgarinnar. Þrettán hektara landfylling verður útbúin austan megin á ósasvæði Elliðaánna, beint út frá athafnasvæði steinefnaframleiðandans Björgunar. Þessar framkvæmdir eru þegar hafnar, þó rannsóknin á áhrifum þeirra standi enn yfir.

Í skriflegu svari rannsakenda til Fiskifrétta segir að rannsóknin árið 2017 bendi til að laxaseiði nýti ekki landfyllingarsvæðið en óvíst sé hvar urriðinn dvelur.

„Ráðist var í fyrsta hluta landfyllingar veturinn 2017/2018 en sá hluti er fjærst Elliðaám og talinn hafa minnst áhrif. Framkvæmdir voru gerðar utan göngutíma fiska úr Elliðaám. Mikil áhersla hefur verið hjá Reykjavíkurborg að fara varlega af stað með landfyllinguna og verður framhald framkvæmda við landfyllingu metin m.a. út frá niðurstöðum ofangreindra rannsókna. Svæðið sem um ræðir er mjög raskað og þrátt fyrir að landfylling fari yfir talsvert stórt svæði má gera ráð fyrir að stöðugleiki svæðisins aukist þegar starfsemi Björgunar flyst í burt. Að auki er fyrirhugað að ytri mörk landfyllingar verði óregluleg og sem líkust náttúrulegri fjöru og þar með gæti svæðið nýst betur sem vist fyrir lífverur og þar með laxaseiði og sjóbirting,“ segir í svari Hlyns og Friðþjófs Árnasonar, verkefnisstjóra.

Vöktun í áratugi

Elliðaár fóstra nokkra náttúrulega fiskstofna; þeirra stærstir eru lax og urriði en einnig nýta bleikja, áll, og hornsíli búsvæði í vatnakerfisins. Stofnar laxfiska í Elliðaánum hafa verið vaktaðir í áratugi, og vitneskjan um vistkerfið sennilega hvergi eins viðamikil hérlendis og í vatnakerfi þeirra.

En bætir þessi rannsókn ekki við mikilvægum upplýsingum í tilliti til þess hversu margt er vitað. 

„Þrátt fyrir að margt sé vitað um laxfiska Elliðaáa er ekki vitað mikið um hvað gerist á tímabilinu frá því seiði yfirgefa ferskvatn Elliðaáa og þar til þau koma til baka sem fullorðnir fiskar. Þessi rannsókn bætir við mikilvægum upplýsingum um fyrsta og jafnframt kannski mikilvægasta tímabilið meðan á sjávardvöl fiska stendur,“ segir í svari Hlyns og Friðþjófs. 

Þekkt er að afföll laxa frá því að seiði ganga í sjó og til þess tíma að fullorðinn lax gengur til baka í sína heimaá, einu til tveimur árum síðar eru mikil. Í tilfelli Elliðaánna sýndu rannsóknir að endurheimtur voru að meðaltali rúm átta prósent á árunum 1998 – 2007. Rannsóknir erlendis frá sýndu einnig að stór hluti þessara affalla eru á fyrstu stigum göngunnar, eða þegar seiði fara úr ferskvatni í sjó. Kemur þar margt til; afræningjar, breytt umhverfi og lífeðlisfræðilegt álag vegna hærri seltu og breytts hitastigs. Þrátt fyrir þessa vitneskju hafa fáar rannsóknir verið gerðar á búsvæðanotkun, afföllum og hegðun laxaseiða á fyrstu stigum sjávargöngunnar, segir í áfangaskýrslu rannsóknarinnar sem gengur undir vinnuheitinu Farleiðir gönguseiða laxa á ósasvæði Elliðaáa, og kom út í mars á þessu ári. Þar eru frumniðurstöður kynntar. 

180 mínútur frá ósi og útfyrir

Niðurstöður rannsóknarinnar eftir sumarið 2017, í mjög styttu máli, eru þær að gönguseiðin dvöldu að meðaltali sjö daga og 18 klukkutíma neðst í Elliðaánum áður en þau gengu til sjávar, en þegar þau voru lögð af stað tók það þau að meðaltali 180 mínútur að synda frá ósi og út fyrir Elliðaárvoga. Flest laxaseiðin gengu stystu leið til hafs, meðfram jaðri fyrirhugaðs landfyllingarsvæðis. Niðurstöðurnar gefa til kynna að laxaseiði á göngu út strandsvæði Elliðaárvogs, gangi mjög lítið um fyrirhugað landfyllingarsvæði. Svæðið er mjög raskað. Þar er fíngerður leir eða set á botni, talsverðar grynningar vegna áralangs efnisframburðar frá fyrirtækinu Björgun og gjarnan er þar talsvert grugg. Bæði er það vegna sanddælinga og uppróts frá botni. 

„Mögulega forðast gönguseiði slíkar umhverfisaðstæður og ganga því í minna mæli inn á landfyllingarsvæði en ef um óraskað umhverfi væri að ræða. Enn er ókannað hver farhegðun fullorðinna fiska sem eru að ganga inn í Elliðaár til hrygningar er, sem og farhegðun urriða (sjóbirtings) en urriði dvelur á strandsvæðum frá því hann gengur til sjávar að vori þar til hann gengur aftur upp í ferskvatn síðsumars og fæðuslóð hans því ólík fæðuslóð laxa. Þetta er fyrirhugað að kanna í rannsóknum árið 2018,“ segir í áfangaskýrslunni. 

Það hefur ekki verið ákveðið hvenær rannsókninni verður lokið en æskilegt er að rannsókn sem þessi sé gerð yfir a.m.k. tveggja ára tímabil. 

„Þar sem 2017 var eins konar forkönnun stefnum við að því að endurtaka rannsóknina árið 2019. Það er hins vegar undir Reykjavíkurborg komið,“ segir í svarinu.