sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vakta plastmengun í hafi í magainnihaldi fýla

Svavar Hávarðsson
12. júní 2018 kl. 07:00

Jan Franeker fræðir nemendur á námskeiðinu um krufningu fýla. Mynd/Aðalsteinn Örn Snæþórsson

Sjómenn eru hvattir til að koma dauðum fýl til Náttúrustofu Norðausturlands vegna vöktunar á plastmengun í hafi.

Náttúrustofa Norðausturlands hefur nýverið samið við Umhverfisstofnun um rannsóknir á plasti í fýlum – eða múkka eins og hann er einnig kallaður (Fulmarus glacialis). Um er að ræða hluta af staðlaðri vöktun á plastmengun á OSPAR svæðinu.

OSPAR hóf að nota plast í fýlum sem vistfræðilegan mælikvarða á plastmengun hafsins árið 2009 en þá höfðu rannsóknir á plastmengun í fýlum staðið yfir frá níunda áratug síðustu aldar.

 

Frá þessum rannsóknum er sagt á heimasíðu Náttúrustofu Norðausturlands.

Starfsmaður Náttúrustofunnar, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, fór til Hollands í vetur og sótti þar námskeið á vegum rannsóknastofnunarinnar Wageningen Marine Research. Umsjónarmaður námskeiðsins var Jan van Franeker sem sér um samræmingu rannsóknaraðferða við athugun á plasti í fýlum fyrir OSPAR.

Hræin krufin

„Við krufningu á hræjum eru ýmsir líffræðilegir þættir mældir og kyn og aldur greindur. Plastið sem finnst í mögum er flokkað eftir uppruna þess í iðnaðarplast og neysluplast og er neysluplastið svo flokkað nánar eftir gerð þess,“ segir í texta Náttúrustofunnar.

Aðalsteinn segir réttara að tala um vöktun frekar en rannsókn og sem slík þá er verkefnið langtíma verkefni. Það fer eftir því hvernig gengur og niðurstöðum vöktunarinnar sem ræður því hversu lengi hún mun vara.

„Við erum ekki búin að fá neina fýla enn, en höfum bara verið í sambandi við sjómenn hér á Húsavík. Það er stefnt að því að ná 40 fýlum árlega. Það má benda áhugasömum sjómönnum á – vilji þeir ljá þessu verkefni lið – að hafa samband við okkur ef þeir hafa dauðan fýl sem gæti nýst okkur í verkefninu,“ segir Aðalsteinn.

Snýr að mengun hafsins

Verkefnið snýr ekki að því að skoða áhrif plastmengunarinnar á fuglinn sjálfan.

„Þessi rannsókn miðar að því að vakta plastmengun í vistkerfi hafsins í Norðaustur Atlantshafi. „Sú plastmengun hefur örugglega áhrif á mjög margar tegundir lífvera en þó mismikil eftir tegundunum. Ástæða þess að fýllinn er notaður í vöktuninni er hve hentug tegund þetta er. Plastið mun örugglega hafa einhver áhrif á fýlinn en fækkun fýla í Norðaustur Atlantshafi hefur þó ekki verið rakin til þessarar mengunar. Líklegast er að fæða spili þar stærstan þátt,“ segir Aðalsteinn sem bætir því við að hvað varðar magn plasts í fýlum þá hefur það að mestu staðið í stað við vöktunina í gegnum árin. Þá virðast flestir fuglar sunnarlega á svæðinu vera með plast í sér en það minnkar eftir því sem norðar dregur.

„Plast í fýlum hefur einu sinni verið kannað hér á Íslandi og þá voru um 30% fýla við strönd Íslands með plast í sér sem er langt ofan við viðmiðunarmörk,“ segir Aðalsteinn.

Ákjósanleg tegund

Fýll er talinn mjög ákjósanleg tegund til að rannsaka og vakta plastmengun í sjó vegna þess að fýlar afla sér fæðu eingöngu á sjó og sjaldan nærri landi. Þeir eiga erfitt með að kafa og því afla þeir sér fæðu mest sem næst yfirborði sjávar. Komið hefur í ljós að fýlar gleypa talsvert af plasti og eru nokkrar ástæður taldar fyrir því. Einna helst er talið að sumt plast líkist fæðu, plast geti verið í mögum dýra sem fýllinn étur, t.d. úrgangur frá fiskibátum og að plast í nágrenni fæðu geti borist í fýla við fæðuupptöku.

Fýlar sem notaðir eru í þessa vöktun eru fyrst og fremst fýlar sem finnast dauðir á ströndum Vestur-Evrópu. Einnig hafa verið notaðir fýlar sem drepast við að festast í veiðarfærum fiskiskipa og –báta og er stefnt að því að nota þá aðferð hér á landi.