fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Valkyrjan í brúnni

Guðjón Guðmundsson
2. júní 2019 kl. 07:00

Kristín Vigfúsdóttir og Steinunn D. Baldursdóttir hafa í nógu að snúast á skrifstofu Valafells. MYND/GUGU

Valafell gerir út neta- og dragnótarbátinn Ólaf Bjarnason SH sem var að koma í land á hávertíðinni með góðan afla þegar Fiskifréttir settust niður með Kristínu Vigfúsdóttur til spjalls.

Valafell ehf. er eina fiskverkunin sem eftir er í Ólafsvík ef frá er talin Klumba sem þurrkar fisk. Hjá Valafelli eru kynjahlutföllin líka í ágætu lagi en í bílstjórasætinu situr Kristín Vigfúsdóttir ásamt aðstoðarkonu sinni Sæunni D. Baldurdóttur en Kristín ásamt eiginmanni sínum, Birni Erlingi Jónassyni skipstjóra, á og rekur fyrirtækið. Valafell gerir út neta- og dragnótarbátinn Ólaf Bjarnason SH sem var að koma í land á hávertíðinni með góðan afla þegar Fiskifréttir settust niður með Kristínu til spjalls.

„Það hefur verið mjög góð veiði og ekkert hægt að kvarta undan því. Við erum líka með Saxhamar SH frá Rifi í viðskiptum og einnig Brynju SH, Hilmir SH og Katrínu SH. Svo erum við svo heppin að hafa fengið nokkra báta í viðskipti sem eru að veiða byggðakvótann sem féll í skaut Ólafsvíkur. Þessir menn hugsa um hag bæjarins og landa hjá okkur,“ segir Kristín. Ólafsvík fékk úthlutaðan 300 tonna byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019.

Stofnað 1961

Valafell var stofnað árið 1961. Björn Erlingur og faðir hans, Jónas Guðmundsson, keyptu fyrirtækið 1969. Þeir ráku það fram til 1981 þegar Kristín og Björn Erlingur tóku við. Kristín stýrði strax rekstrinum og Björn Erlingur var á sjó. Hún hefur því langa reynslu af rekstri sjávarútvegsfyrirtækis og er ein fárra kvenna á Íslandi sem heldur um alla þræði í rekstri sjávarútvegsfyrirtækis. Alls vinna á fjórða tug manna hjá Valafelli, þar af 28 manns í vinnslunni og átta eru í áhöfn Ólafs Bjarnasonar. Það er í mörgu að snúast og vinnudagurinn yfirleitt langur.

Ekki réttu megin í pólitíkinni

Ólafur Bjarnason SH er 112 tonn stálskip, smíðað á Akranesi 1973. Þau hjón hafa gert Ólaf út frá því þau tóku við fyrirtækinu og allan þennan tíma hafa þau viðað að sér kvóta eftir efnum og aðstæðum. Um svipað leyti byrjuðu þau að leggja drög að saltfiskverkun og hófu byggingarframkvæmdir 1984. Framkvæmdirnar tóku sinn tíma, ekki síst vegna þess að þau þurftu sjálf að sjá um að gera landfyllingu fyrir húsið sem var út við bryggjuna.  Árið 1990 var húsnæðið tekið í notkun og árið 2006, þegar farið var að þrengja að verkuninni, keyptu þau hjónin húsnæði Hróa á Snoppuvegi sem hafði verið ein stærsta saltfiskverkun landsins. Húsið var í talsverðri niðurníðslu. Það hafði komið til greina að rífa húsið sem þótti umhverfislýti. Kristín fékk útibú Landsbankans í Ólafsvík til að bjóða í húsið sem var þá í eigu Sparisjóðs Ólafsvíkur. Hún setti það sem skilyrði að ekki yrði gefið upp fyrir hvern bankinn væri að bjóða í húsið. Hún segir að pólitíkin hafi ráðið þessari ákvörðun. Hún vissi að hún væri ekki réttu megin í hinu pólitíska litrófi til að vera í náðinni hjá sparisjóðnum. Gengið var að tilboðinu og fékkst húsið á ágætu verði, að sögn Kristínar.  Það er á hátt í 2.000 fermetra gólffleti og það kostaði mikla vinnu að koma því í stand, sem gerð var með vinnu starfsfólks og fjölskyldunnar. Öll árin réri Björn Erlingur en nú er hann kominn í land og lætur ekki sitt eftir liggja í vinnslunni.

Gæti selt mun meira

Kristín segir misjafnt hve mikið magn sé unnið hjá Valafelli á einu ári en það geti farið allt upp í 2.000 tonn. Reksturinn sé sveiflukenndur. Á vertíð gangi þetta snurðulaust fyrir sig en svo koma tímar, eins og á haustin þegar fiskirí er lítið. Aflinn er allur unninn í saltfisk fyrir markaði á Spáni og Portúgal. Lifrin er seld til Akraborgar, hrognin fara á fiskmarkaðinn.  Sundmaginn er seldur til Svíþjóðar. Þar er hann vinsæl matvara meðal innflytjenda af asískum uppruna.

„Við seljum allan okkar fisk í gegnum Nastar og höfum við selt sömu viðskiptavinum í gegnum árin. Við seljum jafnt til stórverslana og til sjálfstæðra milliliða sem selja jafnt til verslana en líka mikið til veitingastaða. Það er misjafnt hve mikið við seljum út og það fer bara eftir því hve mikið við getum framleitt. Við gætum selt mun meira en við höfum bara ekki meiri fisk,“ segir Kristín.

Um 50-60% af hráefninu til saltfiskvinnslunnar kaupir Valafell á fiskmarkaði og það er einungis yfir hávertíðina sem ekki þarf að kaupa á markaði.

Sveiflur

Kristín segir ástand loðnustofnsins sé áhyggjuefni. Loðnan sé mikilvægur þáttur í fæðu þorsks og hún veltir því fyrir sér hvaða áhrif þetta geti haft á göngu þorsks. Hún veltir því líka fyrir sér hvort loðnan hafi ekki verið ofveidd og það sé líklega að birtast í loðnubrestinum nú.

Kristín segir að öðru leyti góðan gang í rekstrinum en gengi íslensku krónunnar sé alltaf að trufla. Samið sé við viðskiptabátana í janúar en útflutningsverðmætin sveiflist til í takt við gengið. Nú sé evran komin niður í 132 krónur en var 139 krónur þegar samið var um fiskverðið.

„Veiðigjaldið kemur illa við okkur á þessu svæði. Það kemur langmest við kaunin á minnstu og millistóru útgerðunum. Yfirleitt eru þetta fjölskyldufyrirtæki hér á þessu svæði sem eru að reyna að sjá sér farborða með þessu. En ekkert fyrirtæki er rekið nema með góðu fólki og þar höfum við verið lánsöm. Við erum með mjög duglegt fólk bæði til sjós og lands.“

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 17. apríl síðastliðinn