sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vandinn við að flokka sjávarrusl

15. september 2019 kl. 07:00

Ruslið af ströndunum við Bolungarvík komið til Ísafjarðar. MYND/Aðsend

Meðal viðfangsefna Háskólaseturs Vestfjarða eru rannsóknir á plasti og öðru rusli í hafi. Markmiðið er meðal annars að staðla aðferðir við flokkun á slíku rusli svo rannsóknir verði samanburðarhæfar.

Í síðustu viku stóð Háskólasetrið fyrir vinnustofu um sjávarrusl á norðurslóðum. Þar var unnið með rusl sem nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun höfðu safnað í grennd við Hólmavík.

„Þetta er ekki okkar verkefni í sjálfu sér, við vorum gestgjafar þeirra hér en þetta er íslenski parturinn af þessu verkefni sem nær yfir stærra svæði.“

Vinnuna leiddu þau Wouter-Jan Strietman og Martine van den Heuvel-Greve frá Hollandi. Þau hafa fengist við að rannsaka sjávarrusl á norðurslóðum og leggja áherslu á að greina uppruna þess. Áður hafa þau rannsakað rusl sem safnað hefur verið á ströndum Svalbarða, Jan Mayen og Grænlands og hafa nú bætt Íslandi í hópinn

„Þau eru að kenna okkur inn á sínar aðferðir. Þær aðferðir eru nákvæmari en OSPAR-aðferðin sem er sú aðferð við hreinsun stranda sem mest hefur verið stöðluð. En þar eru net til dæmis bara skráð sem net, en ekki hvers konar net er um að ræða, hvort það séu rækjunet, grásleppunet eða hvað.“

Niðurstöðurnar úr strandhreinsuninni við Hólmavík urðu þær að á samtals 800 metra kafla fundust alls 300 kíló af rusli. Alls voru það 6.800 stykki sem voru í þessum 300 kílóum.

Af þessum 6.800 stykkjum voru 32 prósent afskurðir úr netum, 26 prósent voru smáir plasthlutir sem ekki var unnt að greina nánar, 11 prósent voru lok af plastflöskum og 7 prósent voru skothylki.

Ef hins vegar flokkað er eftir þyngd þá voru 26 prósent heil net, 16 prósent voru reipi ýmis konar, 14 prósent voru neta- og reipaflækjur og 8 prósent voru baujur eða hlutar úr baujum.

Tannkremstúbur frá Noregi
„Það var ekki margt sem kom þarna á óvart nema kannski skothylkin,“ segir Catherine. „Flest af þessu er síðan þannig að við getum lítið sagt um hvaðan það kemur, hvort það er frá Rússlandi eða Íslandi eða hvað. Við sáum reyndar tannkremstúbur frá Noregi.“

Hún segir einnig erfitt að segja til um aldurinn á þessu rusli.

„Sumt af þessu er mjög gamalt, 40 til 50 ára, en erfitt að segja um annað. Sérfræðingur frá Hafró hér á Ísafirði hefur verið að skoða þetta.“

Mikið af þessu kemur úr sjávarútvegi en Catherine segir engan veginn sanngjarnt að kenna sjómönnum alfarið um þennan vanda.

„Það er ekki hægt að fullyrða að þeir kasti þessu bara í sjóinn viljandi. Aðstæður um borð eru kannski þannig, það getur verið brjálað veður og nóg að gera við að sinna veiðunum.“

Partur af rannsókninni er að skoða hvað gerist og þar með hvaða lausnir sé hægt að finna til að koma í veg fyrir að plast berist í sjóinn.

„Við sjáum núna ýmsar leiðir en spurningin er hvort það sé raunhæft á skipunum.“

Magainnihald þorsks og ýsu
Á föstudaginn varði síðan Amy Elizabeth O‘Rourke meistaraprófsritgerð við Háskólasetrið, þar sem hún leitaðist við að þróa og prufukeyra flokkunarfræði fyrir ólíkar tegundir sjávarrusls sem rekur á land við norðanvert Atlantshaf. Rannsóknin náði til sex stranda á Vestfjörðum og niðurstöðurnar sýna að ruslið er að stærstum hluta veiðarfæri sem hafa tapast eða týnst.

Nýverið hlaut Háskólasetur Vestfjarða einnig styrk frá vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um hafið og strandsvæði. Sá styrkur er til eins árs, nemur 325 þúsund dönskum krónum og er ætlaður til rannsókna á plasti sem finnst í maga nytjafiska.

„Þetta er samstarfsverkefni Háskólasetursins og Aquaplan Niva í Noregi og færeysku Umhverfisstofnunarinnar,“ segir Catherine.

„Við ætlum að skoða plast sem finnst í magainnihaldi þorsks og ýsu. Rannsóknir í Noregi og Kanada sýna að 3 til 4 prósent af þorski sem veiddur er á handfæri er með plast í maga, en hvað þýðir sú tala eiginlega? Það breytir miklu hvort maginn sé fullur af plasti eða hvort aðeins fannst einn lítill hlutur. Það skiptir líka miklu hvers konar plast er um að ræða, hvort það sé eitthvað hættulegt eða eitthvað sem skilar sér bara út með eðlilegum hætti. Við ætlum að reyna að staðla upplýsingar úr rannsóknunum svo þær verði samanburðarhæfar við aðrar rannsóknir.“