laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vantar reglur og markað fyrir grjótkrabba

7. september 2019 kl. 09:00

Stundaðar voru veiðar á grjótkrabba á Fjólu GK en þeim var hætt. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Veiðar á grjótkrabba ekki orðnar arðbærar.

„Við stunduðum tilraunaveiðar á grjótkrabba í Faxaflóa frá árinu 2011 til 2018“ segir Davíð Freyr Jónsson hjá Royal Iceland og áður eigandi Arctic Seafood sem gerði út krókaveiðibátinn Fjólu GK. Hann segir að veiðunum hafi verið hætt á síðasta ári af markaðs- og stjórnsýslulegum ástæðum.

Hér á öðrum stað í blaðinu er fjallað um árlega vöktun Náttúrustofu Suðvesturlands þar sem fram kemur hröð útbreiðsla og mikill þéttleiki grjótkrabba á vöktunarsvæðunum. En enginn sér ástæðu til þess að nýta þennan nýja nytjastofn.

Ekki enn orðið arðbærar veiðar

„Við könnuðum útbreiðslu á grjótkrabba aðallega í Hvalfirði og út af Borgarfirði en einnig í Breiðafirði. Á þessum tíma var veiðin ekki það mikil að hún gæti talist arðbær. Auk þess er engin sérhæfð vinnsla á krabba á Íslandi og bannað er að flytja heilan, frystan grjótkrabba til Kína sem er eini markaðurinn sem sýnir þeirri afurð áhuga. Það eru markaðir víða um heim fyrir krabbakjötið en kostnaður við uppsetningu á vinnslu er mjög hár,“ segir Davíð Freyr.

Hann segir að þegar veiðarnar hafi verið stundaðar hafi verið að fást 5-7 kíló í gildru en til þess að þær teljist sæmilega arðbærar megi varla vera minna en 10 kíló í gildru. Davíð Freyr kveðst þó fullviss um að sá dagur renni upp fyrr en síðar að veiðarnar verði arðbærar.

Í fríverslunarsamningi Kína og Íslands er einungis heimilt að flytja út sjávarafurðir sem höfðu verið fluttar út til Kína fyrir gerð samningsins. Af þeim sökum fæst ekki leyfi til útflutnings þangað á heilum grjótkrabba nema með sérstakri umsókn og miljóna kostnaði.

Misstu áhugann

Davíð Freyr segir að sjávarútvegsráðneytið hafi á síðasta ári ákveðið að grípa til aðgerða til þess að stuðla að auknum krabbaveiðum. Fyrir þann tíma þurfti sérveiðileyfi til þess að veiða krabba í Faxaflóa. „Það var að hluta til ástæðan fyrir því að við héldum krabbaveiðum áfram og við þurftum að veiða ákveðið magn til þess að halda leyfinu. Við vissum að ef veiðar gengju vel væri ólíklegt að gefinn yrði út ósjálfbær fjöldi leyfa. Við töldum að það gæti verið ágæt umbunun fyrir þá sem stóðu í þessum óarðbæru veiðum. En fyrir ári síðan ákvað sjávarútvegsráðherra að gera breytingar á þessu. Nú eru í raun engar reglur um þessar veiðar. Það þarf vissulega ennþá leyfi en það eru engin takmörk á því hve mörg leyfi eru gefin út. Það ríkir því mikil óvissa í þessum efnum. Áhættan við að leggja í miklar fjárfestingar til að stunda krabbaveiðar er því of mikil. Þetta varð til þess að við misstum áhugann á þessum veiðum og hættum þeim í fyrra vegna þessara breytinga. Aðgerðir ráðuneytisins til þess að örva veiðarnar höfðu því þveröfug áhrif,“ segir Davíð Freyr.

Hann segir að bærust vísbendingar úr ráðuneytinu um framtíðarskipan mála hvað varðar krabbaveiðar gæti áhugi fyrir áframhaldandi veiðum kviknað.

Einn bátur frá Akranesi stundaði minniháttar tilraunaveiðar á grjótkrabba í fyrra haust með veiðarfærabúnaði frá Royal Iceland sem jafnframt kaupir aflann.