þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Var kolmunnastofninn verulega vanmetin?

26. ágúst 2011 kl. 09:00

Kolmunni.

Niðurstöður úr rannsóknaleiðangri gefa vonir um að kolmunnkvótinn verði aukinn umtalsvert á næsta ári

Í alþjóðlegum kolmunnaleiðangri, sem farinn var á hrygningarslóð vestur af Bretlandseyjum í vetur og vor, kom í ljós að fjögurra ára árgangurinn, sem kolmunnakvótinn í ár byggist á, hefur verið verulega vanmetinn. Þetta upplýsti leiðangursstjórinn, Ole Arve Misund hjá norsku hafrannsóknastofnuninni, á ráðstefnu í Álasundi nýlega.

Frá þessu er greint á vef samtaka norskra útvegsmanna. Þar segir einnig að ástandið á tveggja ára kolmunna sé í góðu lagi og talsvert hafi fundist af eins árs kolmunna.  

Skipstjórar á uppsjávarskipum, sem veiddu kolmunna í Norðursjó í fyrra, urðu varir við mikið af ungum kolmunna og niðurstöður fiskifræðinga nú staðfesta það.

Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hefur fengið niðurstöður úr leiðangrinum til umfjöllunar en ráðgjöf stofnunarinnar um kolmunnaveiðar á næsta ári verður lögð fram í haust. Á vef samtaka norskra útvegsmanna segir að kolmunnarannsóknirnar geti lagt grunninn að kröftugri kvótaaukningu í kolmunna árið 2012.