sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Varað við afturvirkni breytinga

Guðsteinn Bjarnason
15. maí 2021 kl. 09:00

SFS leggur til að ákvæði um hámarksaflahlutdeild verði endurskoðuð, en breytingar á skilgreiningu tengdra aðila séu umfram tilefni. MYND/Svavar

Atvinnuveganefnd vinnur að frumvarpi um tengda aðila.

Útgerðarfélag Reykjavíkur segir breytta skilgreiningu tengdra aðila geta skapað réttaróvissu fyrir útgerðir. Í skráningarlýsingu Síldarfélagsins eru Samherji, Kjálkanes og SÚN taldir til tengdra aðila.

Atvinnuveganefnd hefur undanfarið ítrekað rætt á fundum sínum frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um rafrænt eftirlit, breytt viðurlagakerfi og skilgreiningu tengda aðila. Frumvarpið var lagt fram á þingi 7. apríl og gekk til atvinnuveganefndar eftir aðra umræðu 13. apríl.

Átta umsagnir hafa borist við frumvarpið eins og það leit út eftir aðra umræðu, en hvað varðar tengda aðila er helsta breytingin sú að skilgreining þeirra er nú nánast samhljóða skilgreiningu tengdra aðila í samkeppnislögum.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja í sinni umsögn að breytingin sé „umfram tilefni” en þau leggja hins vegar til að „að ákvæði um hámarksaflahlutdeild verði einnig tekin til endurskoðunar, einkum með tilliti til áhrifa þorskígildisstuðla sem mælikvarða á verðmætahlutföll einstakra tegunda.”

Ólík markmið laga

Útgerðarfélag Reykjavíkur segir síðan í sinni umsögn að grundvallarmarkmið fiskveiðistjórnunarlaga séu önnur en samkeppnislaga. Tilgangur fiskveiðistjórnunarlaga sé „fyrst og fremst að hámarka afrakstur þjóðarbúsins af hinni sameiginlegu fiskveiðiauðlind” en samkeppnislög hafi það markmið „að efla virka samkeppni á markaði.”

Þess vegna „ætti í raun að þurfa meira til að koma svo að um raunveruleg yfirráð sé að ræða í skilningi laga um stjórn fiskveiða heldur en í skilningi samkeppnislaga. Því á það mjög illa við að hugtakið raunveruleg yfirráð sé afmarkað með víðtækari hætti í fiskveiðistjórnunarlögum en í samkeppnislögum og samkeppnisrétti almennt.”

Skoða þurfi slíkt inngrip „sérstaklega í ljósi atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæða stjórnarskrár.“

Afturvirk áhrif

Þá sé ljóst „að komi sú staða upp að breyting á skilgreiningu á raunverulegum yfirráðum og tengdum aðilum leiði til breytinga á útreikningi hámarksaflahlutdeildar,” þannig að aðili fari yfir þau mörk sem tilgreind eru í lögum, „eða jafnvel sé óviss um hvort að hann fari yfir þau, liggur ekki fyrir hver réttarstaða hans er þar sem ekki er kveðið á um það í frumvarpinu.

ÚR telur ekki stætt á því að nýjum skilgreiningum verði beitt afturvirkt um aðstöðu sem fyrir löngu er orðin að veruleika. Slíkt myndi fela í sér mikið og afturvirkt inngrip sem er ófyrirséð í rekstri aðila.”

Athygli vekur reyndar að í ítarlegri skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar, sem birt var vegna hlutafjárútboðs fyrirtækisins nú í vikunni, er vikið að skilgreiningum á tengdum aðilum. Þar segir að til tengdra aðila teljist hluthafar sem hafa veruleg áhrif á starfsemi fyrirtækisins og eru þar nefnd dótturfélög og „stjórnarmenn, forstjóri, helstu stjórnendur og nánir fjölskyldumeðlimir þeirra og félög sem þeir ráða yfir“.

Samkvæmt því teljist Samherji hf., sem í árslok 2017 réð yfir 44,64% hlutafjár í Síldarvinnslunni, Kjálkanes hf, sem réð yfir 34,23% og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, sem réð yfir 10,97%, vera tengdir aðilar í skilningi laga um ársreikninga.