miðvikudagur, 15. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Varðar ímynd greinarinnar

Guðjón Guðmundsson
19. apríl 2019 kl. 07:00

Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins. MYND/GUGU

100-200 manns slasast á hverju ári við fiskvinnslustörf.

 Viðvarandi fjöldi slysa hefur verið í fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi til margra ára. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, segir að þetta sé staðreynd og þrátt fyrir það að fiskvinnslan sé atvinnugrein sem hafi búið við miklar tækniframfarir. Einna alvarlegustu slysin verða við fiskvinnslutæki sem eru ekki með réttum frágangi en algengustu slysin eru skurðarslys.

Á bilinu 100-200 starfsmenn fiskvinnslufyrirtækja hafa slasast á hverju ári undanfarna áratugi. Fjöldi beinbrota hefur haldist nokkurn veginn óbreyttur milli ára sem Kristinn segir vísbendingu um skilvísar tilkynningar um vinnuslys í fiskvinnslufyrirtækjum. Auk þess að tilkynna slysin þurfi fyrirtækin að vera með eigið áhættumat og atvikaskráningu. Kristinn segir það verkefni Vinnueftirlitsins að stuðla að því að fiskvinnslan sjálf sem starfsgrein líti á það sem gæðastimpil að draga úr vinnuslysum. Hann segir umræðuna á samfélagsmiðlum beitta og harða og stjórnendur fiskvinnslufyrirtækja verði að gera sér grein fyrir því að há slysatíðni geti komið alvarlega niður á ímynd greinarinnar.

Spurning um öryggismenningu

„Þróun véla og búnaðar býður upp á það að hanna burt slysahættu og skapa umhverfi sem er síður til þess fallið að valda tjóni á starfsmönnum. Þetta er skipulögð starfsemi sem þarf að skila vöru í háum gæðaflokki sem er með því besta í veröldinni. Þess vegna hefði mátt ætla að þegar ferlar eru þróaðir til framleiðslu á slíkri vöru að hægt væri að hanna þá þannig að vinnuumhverfið sé öruggt,“ segir Kristinn.

Vinnueftirlitið hefur verið með eftirlitsátak með fiskvinnslufyrirtækjum nokkur síðastliðin ár. Ítarleg eftirfylgni hefur verið með vissum fyrirtækjum, einnig metnaðarfullum fyrirtækjum sem eru að mörgu leyti stolt landsmanna.

„Það veldur okkur því miklum vonbrigðum að við höfum þurft að gera margar athugasemdir í þessum þekktu fyrirtækjum. Í kjölfarið merkjum við framfarir innan þessara fyrirtækja en þær eru bundnar við þær deildir fyrirtækjanna sem athugasemdirnar beindust að en virðast ekki smitast út um allt fyrirtækið. Það getur þess vegna allt verið í besta standi á einum stað innan fyrirtækisins en annars staðar ekki. Þetta vekur upp spurningar um samskiptamátann, öryggismenninguna og öryggishugsunina innan fyrirtækjanna.“

Vilja stjórnendur ekki skila arði?

Kristinn segir athugasemdir Vinnueftirlitsins oft beinast að því að í kjölfar viðhalds á fiskvinnslutækjum gleymist að setja á einfaldar öryggishlífar. Hlífarnar séu til staðar og það taki skamman tíma að festa þær aftur á tækin en það er ekki framkvæmt.

„Þetta býður upp á hættu á slysum með ómældu tjóni, jafnt heilsutjóni starfsmanna og rekstrartjóni fyrirtækisins. Stundum einfaldlega skil ég þetta ekki því þetta er svo lélegur „bisness“. Hafa stjórnendur þessara fyrirtækja ekki áhuga á því að þau skili arði? Tjón sem af þessu getur hlotist er hræðilegt fyrir þann slasaða auk þess af hlýst tap upp á umtalsverðar fjárhæðir fyrir vinnsluna. Það er rekstrarstöðvun í kringum tækið, það eru veikindaleyfi og forföll starfsmanns, það þarf að fá nýjan starfsmann og þjálfa hann og svo framvegis. Allt þetta stóra ferli skiptir svo miklu máli. Við getum lesið það af gögnum um vinnuslys innan fiskvinnslunnar að þetta eru einföld slys sem öllu jafna er auðvelt að fyrirbyggja með tæknilegum lausnum þar sem áhættan er hönnuð í burt.“

Slysavarnaskóli sjómanna fyrirmynd

Kristinn segir alveg ljóst af samskiptum Vinnueftirlitsins og fyrirtækjanna að það ríkir skilningur og áhugi meðal stjórnenda og starfsfólks að þessir hlutir eigi að vera í lagi. En kúltúrinn til þess að leiða aukna öryggisvitund inn í fiskvinnslufyrirtækin hafi ekki tekist sem skyldi. Þegar vitundin nái ekki til allra starfsmanna rofni keðjan með tilheyrandi hættu. Mörg fyrirtæki séu engu að síður með stöðu öryggisstjóra og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi gert sitt til þess að knýja fram breytingar á þessu sviði. Engu að síður er slysatíðnin alltof há innan greinarinnar.

Kristinn bendir á að sú öryggismenning sem hafi orðið til í gegnum Slysavarnaskóla sjómanna sé dæmi sem sé til fyrirmyndar. Öryggismenning hefur verið innleidd meðal sjómanna sem eru upplýstir um að þeir komast ekki á sjó nema að búa yfir þekkingu á öryggismálum. Þar hafi orðið grundvallar viðhorfsbreyting hjá einni stétt manna á nokkrum árum. Slysavarnaskóli sjómanna sé þar miðpunktur í miðlun upplýsinganna.

Slysalausir vinnustaðir

„Þetta vekur upp þá spurningu hvort óhjákvæmilegt sé að bjóða starfsfólki fiskvinnslunnar upp á sérstaka kennslu í öryggismálum eins og sjómenn sækja. Fiskvinnslan er hröð með hættulegum tækjum sem þurfa ávallt að vera rétt uppsett. Það er mikilvægt að starfsmaðurinn þekki tækin og hættuna sem getur stafað af þeim. Um leið þarf að hanna og ganga frá tækjunum með þeim hætti að slysahættan sé hönnuð burt. Starfsfólkið þarf að geta séð það sjálft ef tækið er ekki rétt sett upp og geti brugðist við því með því að neita að vinna við slík tæki. Vinnuveitandinn verður að vera meðvitaður um að það sé grundvallarhagur starfsmanna og fyrirtækisins að hanna í burtu slysahættuna. Fiskvinnslan snýst um það að skila arði og hún skilar ekki hámarksarði nema að hanna í burtu slysahættuna. Um þetta snýst þessi menning,“ segir Kristinn.

Kristinn segir að stjórnendur fiskvinnslufyrirtækja þurfi að tileinka sér þá hugsun að þeirra fyrirtæki verði slysalaust.