föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vaxandi síldarmarkaður í Brasilíu

20. mars 2012 kl. 11:00

Norsk síld er seld sem norsk sardína í Brasilíu. (Mynd: Nofima).

Síldin er markaðssett sem valkostur við sardínu.

Norska rannsóknastofnunin Nofima hvetur norska síldarframleiðendur til þess að notfæra sér tækifæri sem skapast hafi vegna aukinnar neyslu á sjávarafurðum í Brasilíu. Markaðurinn er talinn munu vaxa úr 1,8 milljónum tonna í 2,4 milljónir tonna innan fárra ára.

Norsk síld hefur hingað til verið seld í búðum stærstu verslunarkeðjanna og er þá þídd upp og boðin í söluborðum fyrir ferskan fisk. Auk þess hefur hún í minna mæli verið seld fryst. Nofima telur að unnt sé að selja síldina einnig í smærri hverfisverslunum og sér þá þann möguleika að norskir síldarsalar fái innlenda aðila í Brasilíu til þess að sjá um að þíða síldina upp áður en hún fer í búðirnar.

Norska síldin er að stórum hluta seld sem valkostur við brasilíska sardínu. Ástæðan er sú að sardínuveiðar við Brasilíu eru stöðvaðar 2-3 mánuði á ári til þess að draga úr veiðiálagi. Norska síldin er yfirleitt ekki markaðssett sem síld heldur sem norsk sardína og er ekki talin ástæða til þess að breyta því.

Á árinu 2008 seldu Norðmenn rúm 2.000 tonn af heilfrystri síld til Brasilíu, en hækkandi verð á síld á undanförnum árum hefur leitt til þess að þessi útflutningur var kominn niður í tæp 1.000 tonn í fyrra.

Skýrt er frá þessu á vefnum. Fis.com