föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðar á beitukóngi hefjast á ný eftir um eins árs hlé

10. september 2009 kl. 15:00

Beitukóngsveiðar eru að hefjast á ný eftir um það bil eins árs hlé sem varð vegna erfiðleika í sölu afurða, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Aðeins einn til tveir bátar stunduðu þessar veiðar í Breiðafirði í fyrra, Garpur SH og síðar Valdi SH. Beitukóngurinn var unninn hjá Sægarpi ehf. í Grundarfirði. Ásgeir Valdimarsson hjá Sægarpi sagði í samtali við Fiskifréttir að þeir hefðu eingöngu selt beitukónginn til Frakklands en heimskreppan hefði leitt til sölutregðu. ,,Um leið og salan minnkaði gátu heimabátar í Frakklandi annað eftirspurn á markaðinum,“ sagði Ásgeir.

Í vinnslunni í landi er beitukóngurinn flokkaður í stærðir og frystur, ýmist ferskur eða soðinn. Árið 2007 veiddust um 555 tonn af beitukóngi á Íslandi en um 400 tonn árið 2008. Engin veiði hefur verið til þessa í ár. ,,Það er einhver hreyfing á mörkuðum nú í haust en þá er besti sölutíminn. Við förum því af stað aftur en að þessu sinni munum við selja beitukónginn til Asíu,“ sagði Ásgeir. Arnar í Hákoti SH mun veiða beitukónginn fyrir Sægarp.