föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðar norskra skipa: 4% samdráttur á fyrri árshelmingi

28. september 2009 kl. 15:00

Norsk fiskiskip lönduðu um 1,4 milljónum tonna af fiski og skeldýrum á fyrstu sex mánuðum ársins sem er um 4% samdráttur miðað við sama tíma í fyrra. Aflaverðmæti lækkaði hins vegar um 13%, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Mestur samdráttur varð í veiðum norskra skipa á sandsíli og kolmunna á fyrri árshelmingi 2009 en veiðar á loðnu, spærlingi og grálúðu jukust.

Norðmenn veiddu 483 þúsund tonn af síld á tímabilinu sem er svipað magn og á sama tíma í fyrra. Aflaverðmæti síldar jókst um 13% og nam um 1,1 milljarði norskra króna (23 milljarðar ísl. kr.). Síldin skilar um 20% af aflaverðmæti norskra skipa.

Þrátt fyrir að aflaverðmæti þorsks lækkaði um 33% á tímabilinu skilar hann enn mestum aflaverðmætum. Veiðin nam 157 þúsund tonnum sem er 3% samdráttur. Aflaverðmæti þorsks er um 34% af heildinni.

Veruleg aukning var á loðnuveiðum norskra skipa, fór úr 40 þúsund tonnum á fyrri árshelmingi 2008 í um 230 þúsund tonn fyrir sama tíma í ár. Ástæðan er sú að loðnuveiðar voru leyfðar á ný í Barentshafi.

Veiðar á kolmunna drógust saman um 45% og námu alls 219 þúsund tonnum.

Um 72% af heildarafla norskra skipa fóru til manneldisvinnslu en um 28% í bræðslu og aðra vinnslu. Allur sandsílaaflinn fór í bræðslu, 79% af kolmunna og 33% af loðnu.