sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiða tugi þúsunda sela árlega

Guðsteinn Bjarnason
10. febrúar 2019 kl. 07:00

Vöðuselskópur í Kanada. MYND/EPA

Norsk stjórnvöld ætla að greiða selveiðimönnum 2,5 milljónir norskra króna, sem samsvarar rúmlega 28 milljónum íslenskra króna, fyrir að halda til selveiða á árinu.

Norðmenn stunda árlega veiðar á vöðusel í stórum stíl, annars vegar í hafinu norður af Íslandi, milli Grænlands og Jan Mayen, á svæði sem Norðmenn nefna Vesturísinn, og hins vegar í Barentshafi norðan við Hvítahaf og vestan við Novaja Semlja, á svæði sem Norðmenn nefna Austurísinn.

Kvótinn í ár hefur verið ákveðinn og mega menn veiða 26 þúsund dýr í Vesturísnum á tímabilinu frá 1. apríl til 30. júní, og sjö þúsund dýr í Austurísnum á tímabilinu frá 20. mars til 1. júní.

Fiskeribladet í Noregi segir að tvö skip hafi þegar ákveðið að taka þátt í veiðunum, Kvitbjørn og Lance, en allar líkur séu til þess að fleiri bátar verði sendir af stað.

Þessar veiðar eru stundaðar í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) sem telur stofninn vel þola þessar veiðar.

Árið 2017 mat ICES það svo að vöðuselastofninn í Grænlandshafi væri 1,4 milljónir dýra. Veiða mætti 21.500 dýr árlega án þess að stofninn minnki, en til þess að ná stofninum niður í 70 prósent af hámarksstærð mætti veiða 26 þúsund dýr árlega í 15 ár.

gudsteinn@fiskifrettir.is