mánudagur, 30. mars 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiddu norsk-íslenska síld í grænlenskri lögsögu

5. september 2011 kl. 12:15

Síld.

Grænlendingar krefjast þess að fá síldarkvóta.

Færeysku skipin Poseidon og Phoenix, sem eru í eigu Thor-útgerðarinnar, stunduðu tilraunaveiðar á síld og makríl í grænlenskri lögsögu í september og október í fyrra á vegum grænlenskra stjórnvalda.

Fiskibladet/Fiskaren hefur eftir Hans Andrias Joensen útgerðarmanni að skipin hafi veitt 1.500 tonn af síld á fimm til sex sólarhringum á mörkum lögsagna Jan Mayen, Íslands og Grænlands. Þaðan héldu skipin suðvestur á bóginn inn í grænlensku lögsöguna en fengu ekki frekari afla, hvorki síld né makríl.

Í norska blaðinu kemur fram að grænlensk stjórnvöld hafi krafist þess af NA-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC) að Grænland fái stöðu strandríkis hvað varðar veiðar á norsk-íslensku síld og verður málinu fylgt eftir með kröfu um síldarkvóta.

Samkvæmt opinberum tölum í Grænlandi veiddust 1.313 tonn af síld í lögsögu landsins árið 2010 og 1.552 tonn árið 2007. Grænlendingar ætla að halda áfram að leita að síld í lögsögu sinni á yfirstandandi ári og hefur landstjórnin gefið út 10.000 tonna tilraunakvóta. Þar sem Grænlendingar eiga engin uppsjávarveiðiskip hafa þeir tekið færeysk skip á leigu til tilraunaveiðanna.