mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiddu þorsk fullan af loðnu

13. desember 2018 kl. 21:20

Akurey - ein þriggja eyjasystra. Mynd/HB Grandi

Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey, segir þorsk sem veiddur var í Víkurál fullan af loðnu - og það viti á gott.

Allir ísfisktogarar HB Granda eru nú komnir til hafnar vegna þess hlés sem gert verður á veiðum og vinnslu vegna jólahátíðarinnar. Akurey AK kom síðastur togaranna til hafnar í Reykjavík í morgun með rúmlega 130 tonna afla og segist skipstjórinn, Eiríkur Jónsson, í frétt á heimasíðu fyrirtækisins, vera þokkalega ánægður með veiðiferðina.

,,Það var reyndar bræla á miðunum þegar við komum út en svo fengum við ágætt veður í nokkurn tíma. Það var ágætis þorskveiði í Víkurálnum og þar fengum við stóran og góðan þorsk. Fiskurinn var fullur af loðnu og það veit á gott,“ segir Eiríkur en þegar þorskveiðin minnkaði í Víkurálnum var haldið áfram norður eftir Vestfjarðamiðum þar sem aflinn var ufsi og karfi.

Eiríkur segir að heilt yfir hafi þetta verið gott ár.

,,Við erum farnir að sækja mun meira á Vestfjarðamið en við gerðum og aflinn hefur verið jafn og góður,“ segir Eiríkur.

Í sama streng tekur Friðleifur Einarsson, skipstjóri, á Engey RE. Hann segir að aukin þorskveiði ísfisktogara HB Granda kalli á að farið sé eftir þorskinum norður á Vestfjarðamið stóran hluta ársins.

,,Þetta hefur verið gott ár. Jafn og góður afli en tíðarfarið, ekki síst upp á síðkastið, hefði gjarnan mátt vera betra,“ segir Friðleifur Einarsson.