mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðibann 30 km frá ströndinni

8. apríl 2011 kl. 13:45

Fukusima kjarnorkuverið í Japan.

Japönsk stjórnvöld hafa bannað fiskveiðar utan við Fukushima kjarnorkuverið í Japan.

Yfirvöld í Japan hafa lagt bann við fiskveiðum á svæði út að 30 kílómetrum frá ströndinni utan við Fukushima kjarnorkuverið vegna hættu á geislavirkni í sjávarfangi. Þetta er sagt gert í öryggisskyni.

Japanskur fiskiðnaður er í uppnámi eftir náttúrufarirnar og eftirspurn eftir japönskum fiski hefur minnkað bæði innanlands og utan vegna ótta við geislavirkni. Fundist hefur geislavirkni í fiski og sjávargróðri í námunda við kjarnorkuverið en fiskimiðin vestan við landið eru talin vera örugg. Þrátt fyrir það hafa nálæg lönd eins og Suður-Kórea sett hömlur á innflutning sjávarafurða frá Japan og ríki sem fjær liggja, bæði í Asíu, Norður-Ameríku og Evrópu, hafa gripið til ýmissa varúðarráðstafana af sömu ástæðu.

Á síðasta ári var landað rösklega 100 þúsund tonnum af fiski í Fukushima. Það er tiltölulega lítill hluti sjávarvöruframleiðslu Japana sem nam 5,5 milljónum tonna. Eigi að síður hefur óttinn við geislavirkni gert það að verkum að margir neytendur eru tortryggnir gagnvart öllu japönsku sjávarfangi. Þetta ástand endurspeglast meðal annars í því að bæði framboð og eftirspurn hefur minnkað verulega á hinum þekkta Tsukiji heildsölufiskmarkaði í Tókíó frá því að náttúruhamfarirnar urðu.