föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðigjöld námu 12,3 milljörðum á nýliðnu kvótaári

4. október 2013 kl. 14:54

Togveiðar. Mynd Þorgeir Baldursson

Álögð veiðigjöld í upphafi nýs fiskveiðiárs eru 5,2 milljarðar króna.

Álagt almennt veiðigjald á fiskveiðiárinu 2012/2013 nam  4,3 milljörðum og sérstakt veiðigjald nam  10,8 milljörðum en lækkun á sérstaka veiðigjaldinu vegna vaxtakostnaðar gjaldskyldra aðila er 2,8 milljarðar króna. Heildarupphæð almenns og sérstaks veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2012/2013  er því 12,3 milljarðar króna, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Í upphafi fiskveiðiársins sem hófst 1. september sl. voru veiðigjöld lögð á úthlutað aflamark sem hér segir; almennt veiðigjald 3,4 miljarðar kr. Sérstakt veiðigjald verður 3,0 milljarðar króna. Lækkun á sérstöku veiðigjaldi vegna vaxtakostnaðar gjaldskyldra aðila verður 1,2 milljarðar kr.

Veiðigjöld samtals í upphafi fiskveiðiárs nema því alls 5,2 milljarða króna og koma þau til greiðslu á fjórum ársfjórðungslegum gjalddögum.

Á fiskveiðiárunum 2012/2013 til 2017/2018 geta gjaldskyldir aðilar sótt um lækkun á sérstöku veiðigjaldi vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum fram til 5. júlí 2012, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem fram koma í lögum um veiðigjald og reglugerð um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds nr. 838/2012. Fiskistofa tekur ákvarðanir um lækkun sérstaks veiðigjalds.