föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðigjöld verði afkomutengd

30. nóvember 2017 kl. 11:11

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannesson hafa birt stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. MYND/HARI

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er boðuð endurskoðun laga um veiðigjöld, rætt um að efla þurfi hafrannsóknir og jafnframt að efla þurfi hinar dreifðu sjávarbyggðir.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er boðuð endurskoðun laga um veiðigjöld og jafnframt er talað um mikilvægi þess að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir. Þá er rætt um að byggja þurfi upp fiskeldi með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og í framhaldinu þurfi að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir leyfisveitingar í fiskeldi.

„Íslenskur sjávarútvegur stendur mjög framarlega á alþjóðavísu vegna þeirrar áherslu sem lögð er á sjálfbæra auðlindanýtingu, rannsóknir og þróun,“ segir í sáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

„Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna. Einnig þarf að stuðla að kolefnisjöfnun greinarinnar, til dæmis með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann.“ 

Efla þurfi hafrannsóknir
Ennfremur segir:

„Hafrannsóknir gegna lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þarf að efla. Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.“

Um mikilvægi sjávarbyggða segir í sáttmálanum:

„Mikilvægt er að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra. Vega þarf og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þ.m.t. strandveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.“

Varúð við uppbyggingu fiskeldis
Loks er fjallað um fiskeldi með þessum hætti:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“

Þá er fullyrt að kolefnisgjald verði strax í byrjun kjörtímabils hækkað um 50 prósent og það verði svo áfram hækkað á næstu árum í takt við væntanlega aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Undanþágum frá kolefnisgjaldi verði fækkað.

Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð. Í þeirri aðgerðaáætlun verða sett markmið um samgöngur og meðal annars stefnt að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. 

Þá verði í aðgerðaráætluninni sett markmið orkunýtni í atvinnulífinu og innleiðingu alþjóðlegra samninga um vernd hafsins.

gudsteinn@fiskifrettir.is