föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðiheimildir seldar til útgerða með vinnslu

5. júní 2018 kl. 14:59

Landssamband smábátaeigenda segir seinagang Alþingis með veiðigjaldafrumvarpið hafa haft afar neikvæð áhrif á útgerð smábáta. Leggur til viðbótarafslætti.

Landssamband smábátaeigenda lýsir almennt ánægju sinni með frumvarpið, enda kemur það til móts við rekstrarvanda smábátaútgerðarinnar, en gagnrýnir jafnframt harðlega að frumvarp í þessa veru hafi ekki fyrir löngu komið til kasta Alþingis. 

„Ekki síst vegna þess að rúmt ár er liðið frá því LS hóf að vekja athygli á aðsteðjandi vanda,“ segir í umsögn LS við frumvarpið. „Það að málið skuli vera svo seint til komið hefur haft afar neikvæð áhrif á útgerð smábáta. Allt frá upphafi þessa fiskveiðiárs hefur félagið reynt að tala kjark í menn sem vita ekki sitt rjúkandi ráð varðandi framhaldið.“

Þau samtöl hafa að sögn LS oft ekki skilað árangri þannig að menn hafa hætt útgerð. LS segist hafa horft á eftir aflahlutdeild „frá gríðarlega hæfum útgerðaraðilum þar sem skuldastabbinn óx þeim yfir höfuð. Án undantekninga hafa þær veiðiheimildir farið til aðila sem hafa vinnslu á bak við sig.“

LS segist þeirrar skoðunar að útreikningur veiðigjalda, þar sem sama gjald er lagt á alla án tillits til aðstæðna einstakra útgerðarflokka, hafi aukið þann mismun sem er milli einstakra stærðar- og útgerðarflokka. LS fagnar því auknum afslætti til smærri útgerðarfélaga sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, en leggur til viðbótarafslætti.

„Aðferðin er í raun nálgun að þrepaskiptu gjaldi eins og LS hefur sett fram og hlotið góðan hljómgrunn fyrir.“

LS gerir nánari grein fyrir tillögum sínum í umsögn sinni til atvinnuveganefndar og í frétt á vef sínum.