þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðileyfissviptingu Kleifabergs frestað

21. janúar 2019 kl. 10:20

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur frestað réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu á meðan kæra Útgerðarfélags Reykjavíkur er til umfjöllunar.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ákveðið að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu um að svipta togarann Kleifarberg veiðileyfi sínu í tólf vikur sökum brottkasts, á meðan kæra Útgerðarfélags Reykjavíkur er til skoðunar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.

Í frétt blaðsins er rætt við framkvæmdastjóra ÚR, Runólf Viðar Guðmundsson, sem kveðst bjartsýnn á að ákvörðun Fiskistofu verði endurskoðuð.

Eins og Fiskifréttir fjölluðu um 5. janúar taldi útgerðin að viðurlög Fiskistofu afar hörð og í raun „dauðadóm“ yfir útgerð skipsins.

Þar er vísað til niðurstöðu Fiskistofa sem hefur svipt skipið veiðileyfi í þrjá mánuði. Átti veiðileyfissviptingin að taka gildi frá og með 4. febrúar næstkomandi. Ástæðan er brottkast á fiski sem Fiskistofa telur sannað að hafi átt sér stað um borð. 

Þá strax kom fram að ÚR myndi kæra úrskurðinn til ráðuneytisins, enda hafi Fiskistofa „í máli þessu rannsakað bæði meint brot og felldi úrskurð en félagið telur sig ekki hafa notið sanngjarnrar málsmeðferðar,“ eins og sagði í fréttatilkynningu ÚR.

Þar sagði jafnframt að um væri að ræða „dauðadóm yfir Kleifabergi RE og 52 manna vinnustaður verði lagður niður.“