mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðin glæðist þegar síldin fer

Guðjón Guðmundsson
19. október 2019 kl. 09:00

Sævíkin er afar fallegur bátur eftir breytingarnar. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Línubáturinn Sævík GK er kominn austur fyrir land á veiðar.

Línubáturinn Sævík GK var á landleið til Breiðdalsvíkur þegar Fiskifréttir heyrðu í Júlíusi Magnúsi Sigurðssyni skipstjóra. Sævíkin hefur að mestu gert út frá Skagaströnd en landaði þrisvar sinnum í heimahöfn í Grindavík áður en haldið var austur í síðustu viku. Júlíus sagði þokkalegan gang í veiðunum.

„Við vorum fyrir norðan en fórum svo suður en stoppuðum stutt. Það var lítið að frétta af miðunum þar svo við héldum bara austur,“ sagði Júlíus sem var á landleið með um tíu tonn á eina og hálfa lögn.

Hann sagði þó frekar rólegt yfir þessu fyrir austan. Þó sé von á betri tíð. Mikil síld hafi verið úti fyrir Austfjörðum en hún sé nú að yfirgefa svæðið. Þá er von á því að veiðin glæðist. Hann segir það gerist mun seinna nú en í meðalári að veiðin glæðist á þessu svæði. Veiði sé ágæt úti fyrir Norðfirði og þaðan norður úr en rólegra sé yfir þessu suður frá.

Lengdur og endurnýjaður

Fjórir eru í áhöfn Sævíkur. Hún var lengd í sumar um 1,70 metra í miðjunni og skipt um vél og gír. Einnig var allsherjar upptekt á vélarrými og rafmagni og krapavélin tekin upp. Í honum er nýr olíu- og vatnstankur ásamt því að allar lúgur voru endurnýjaðar sem og rekkakerfið. Júlíus segir að þessi tólf ára gamli bátur, sem áður hét Óli Gísla, sé nú nánast eins og nýr.

Sævíkin var í talsverðri ýsuveiði fyrir norðan en það gengur fljótt á ýsukvótann sem var skertur mikið  á yfirstandandi fiskveiðiári. Júlíus segir að úthlutunin veiðist léttleikandi á skömmum tíma. Frá kvótaáramótum höfðu þeir veitt um 70 tonn af ýsu. Þess var líka haldið suður og lagt fyrir löngu þar til áhöfninni var sagt að slaka á í þeim veiðum líka.

Má ekkert veiða

„Það má ekkert veiða. Og þess vegna erum við komnir austur og aðalmálið er bara þorskurinn núna. Enda er það hagstæðast líka fyrir okkur. Við erum náttúrulega í föstum viðskiptum og verðið verið á uppleið. En það er ekkert í samræmi við verð á fiskmörkuðum. Við fáum líklega um 230 krónur á kílóið fyrir fjögurra kíló fisk en svoleiðis fiskur hefur verið á langt yfir 400 krónum á fiskmörkuðum mjög lengi,“ segir Júlíus.

Hann segir að margir sjómenn séu vissulega pirraðir yfir þessu. Önnur hlið sé þó á málinu. Í yfir 10 ár var Júlíus skipstjóri á Daðey og alltaf var landað á markaði.

„Við tókum svona rjómann af þessum og höfðum góðar tekjur ákveðna mánuði á ári og höfðum það svo rólegt þess á milli. Við rérum eiginlega bara á góðu verðunum. Núna erum við með jafnari tekjur og þótt verðið sé lægra eru tekjurnar ekki lægri yfir allt árið. En það er líka meira sótt,“ segir Júlíus.