föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðist í auknum mæli á hverju ári

Guðjón Guðmundsson
7. maí 2021 kl. 08:00

Brislingur er smávaxinn fiskur af síldarætt. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir

Brislingur nýr nytjastofn við Ísland?

Það bar til tíðinda í togararalli Hafrannsóknastofnunar í mars að brislingur veiddist fyrsta sinn í einhverju magni. Alls fengust 375 fiskar á grunnslóð frá Meðallandsbugt til Patreksflóa. Brislingur fannst fyrst við Ísland árið 2017 og hans hefur orðið vart á hverju ári upp frá því en aldrei í jafnmiklu magni og nú.

Klara Björg Jakobsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir þetta talsverð tíðindi en á þessu stigi sé lítið vitað um hvað valdi.

Í leiðangri Hafrannsóknastofnunar sem farinn var til rannsókna á flatfiski á grunnslóð við landið í lok ágúst 2017 veiddist í fyrsta sinn brislingur við Ísland. Brislingur er smávaxinn fiskur af síldarætt og verður sjaldnast stærri en 16 cm. Hann líkist nokkuð smásíld en er auðgreindur frá síld á því að kviðrönd er með þunnan snarptenntan kjöl og rætur kviðugga eru undir eða rétt framan við upphaf bakugga í stað þess að vera undir honum miðjum.

Talsverð tíðindi

„Frá 2017 höfum við fengið brisling í ýmsum leiðöngrum að því er virðist í meira magni á hverju ári og hefur hann veiðst víða fyrir Suður- og Vesturlandi. Í ár fékkst hann í fyrsta skipti í marsralli. Brislingur er vissulega nýr landnemi hér við land og að því leyti eru þessir um 375 fiskar talsverð tíðindi núna,“ segir Klara Björg.

Brislingurinn hefur verið rannsakaður og aldursgreindur. Ekki er vitað enn hvernig stendur á ferðum hans á Íslandsmið og talsverðar vangaveltur eru um það meðal vísindamanna. Brislingur er veiddur við Færeyjar og órökstuddur grunur er um að egg eða lirfur hafi rekið þaðan til Íslands. Þó sé einnig vert að minnast fordæma þess að nýjar tegundir hafi borist hingað með kjölfestuvatni skipa.

Kynþroska fiskur

„Brislingurinn er að finnast hérna kynþroska og nokkurra ára gamall. Í sínu náttúrulega umhverfi er útbreiðsla hans víðáttumikil, frá Marokkó til Norðursjós, inn í Eystrasalt, í kringum Bretlandseyjar og allt norður til Færeyja. Hugsanlega gæti hækkað hitastig sjávar við Ísland haft með það að gera að brislingur nái sér á strik hérna. Í gegnum tíðina fáum við vissulega flækinga hingað til lands og það þarf ekki miklar breytingar á hafstraumum til þess að hingað berist tegundir eða flækingar um einhvern tíma. En á hlýindaskeiði eru meiri möguleikar á því að slíkar tegundir nái sér á strik hér við land,“ segir Klara Björg.

„Það má heldur ekki gleyma því að brislingur líkist mjög ungsíld í útliti þannig að mönnum gæti hafa yfirsést um hvaða tegund var að ræða þegar hann hefur komið í veiðarfæri. Það er best að segja sem minnst um það hvort nýr nytjastofn sé að uppgötvast hér við land. En ef uppgangur hans hér við land verður áfram eins og hann hefur verið er ekki loku fyrir það skotið.“