þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðistjórnun verði fyrirsjáanlegri

Guðsteinn Bjarnason
20. júlí 2019 kl. 07:00

Frumvarp um kvótasetningu Grásleppu gerir ráð fyrir því að aflahlutdeild í grásleppuveiðum verði úthlutað á skip á grundvelli veiðireynslu leyfis en ekki skips. Miðað verður við þrjú bestu veiðitímabil áranna 2013 til 2018.

Grásleppuveiðum hefur verið stjórnað með sóknarmarki en í greinargerð með frumvarpinu segir að sú stjórnun hafi sætt gagnrýni „fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar.“

Starfshópur, sem ráðherra fékk til að fara yfir fyrirkomulag veiðanna og gera tillögur um breytingar, sagði í greinargerð sinni síðastliðið haust að „með veiðistjórnun á grásleppu á grundvelli úthlutað aflamarks væri hægt að ná fram markvissari veiðistjórnun og veiðarnar yrðu hagkvæmari og fyrirsjáanlegri fyrir þá sem þær stunda.“

Frumvarpið er „að meginstefnu unnið upp úr greinagerð starfshópsins og tekur mið af þeim sjónarmiðum sem þar komu fram og athugasemda sem fram komu á samráðsgáttinni,“ að því er segir í greinargerð með frumvarpinu.

Rúmur viðmiðunartími
Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að ef ákveðið yrði að kvótasetja grásleppu þá þyrfti viðmiðunartíminn að vera rúmur, og að minnsta kosti yrði aflaheimildum úthlutað „í upphafi á grundvelli veiðireynslu síðustu sex ára, en þó þannig að miðað verði við þrjú bestu árin af sex.“

Eftir þessu er farið því samkvæmt frumvarpinu á að miða úthlutun grásleppukvóta við þrjú bestu veiðitímabilin frá árinu 2013 til 2018. Skip fá einungis úthlutun ef þau eru með rétt til að fá veiðileyfi, en engu breytir hvort leyfið er í geymslu eða óvirkt.

Þá er gert ráð fyrir því að úthlutunin verði ákveðin „á grundvelli veiðireynslu sem fengin hefur verið á leyfi sem skráð er á skipinu.“

Ekki er sem sagt miðað við veiðireynslu skipsins heldur veiðireynslu á viðkomandi leyfi, og segir í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé gert vegna þess að annars gæti farið svo að „aðilar sem stunda veiðarnar og hafa nýlega keypt sér leyfi til að veiða grásleppu fengju úthlutað sáralítilli aflahlutdeild, en þeir aðilar sem selt hafa frá sér leyfin og eru hættir að stunda atvinnuna fái úthlutað aflaheimildum.“

Engin svæðaskipting
Til þessa hefur veiðunum verið skipt niður á átta svæði en samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að haldið verið í svæðaskiptinguna, enda hefur Hafrannsóknastofnun bent á að engin fiskifræðileg rök væru fyrir því að viðhalda svæðaskiptingu í grásleppuveiðum. Skip hafi ekki mikið verið að flytja sig á milli svæða.

Í frumvarpinu er ráðherra þó gefin heimild til að ákveða svæðaskiptingu eða setja aðrar reglur um veiðarnar.

Undanfarin ár hefur grásleppuvertíð hafist 20. mars og hafa veiðidagarnir verið 44.

Á viðmiðunarárunum, þ.e. 2013 til 2018, hefur bátafjöldinn verið á bilinu 219 til 316 og afli hvers árs verið á bilinu 4.034 til 6.357 tonn.

Þá hafa á þessu tímabili verið flutt út árlega á bilinu 1.694 til 3.725 tonn af grásleppu og útflutningsverðmætið verið á bilinu 834 til 1.476 milljarðar.

Frumvarpsdrögin hafa verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 26. júlí.

Á grásleppuveiðum í vor. MYND/Þorgeir Baldursson