mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðistofnsvísitala úthafsrækju aldrei lægri

24. ágúst 2015 kl. 09:58

Rækja um borð í rannsóknaskipi. (Mynd: Ingibjörg G. Jónsdóttir).

Aldrei hefur fengist jafn mikið af þorskseiðum í úthafsrækjuleiðangri og í ár.

Úthafsrækjustofninn hefur verið í lægð á síðustu árum og vísitala veiðistofns í nýafstöðnum leiðangri er sú lægsta sem mælst hefur síðan rannsóknir á úthafsrækju hófust árið 1988, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar.    

Nýlega lauk árlegum úthafsrækjuleiðangri Hafrannsóknastofnunar fyrir norðan og austan land. Tilgangur leiðangursins er að meta stofnstærð og nýliðun úthafsrækju.

Mikið var af þorski á öllu rannsóknasvæðinu. Þorskseiði fengust í nær öllum togum vestan við Grímsey, en aldrei hefur fengist jafn mikið af þorskseiðum í úthafsrækjuleiðangri og í ár. Hins vegar var magn grálúðu mjög lítið. 

Mælingin fór fram á Bjarna Sæmundssyni 1.-12. ágúst. Í leiðangrinum voru teknar 86 stöðvar eftir fyrirfram ákveðnu stöðvaplani. Leiðangursstjóri í leiðangrinum var Ingibjörg G. Jónsdóttir og skipstjóri var Ingvi Friðriksson.