laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðiráðgjöf Hafró: 15 milljarða tekjutap

5. júní 2008 kl. 11:30

Tillögur Hafrannsóknastofnunar um veiðar á næsta fiskveiðiári þýða um 15 milljarða króna tekjutap miðað við aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs, að mati Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Samkvæmt núgildandi aflareglu ætti þorskkvótinn á næsta fiskveiðiári að verða 124 þúsund tonn, en sjávarútvegsráðherra ákvað á síðasta ári að kvótinn færi niður fyrir 130 þúsund tonn á þessu og næsta ári.

Hafrannsóknastofnun leggur til verulegan niðurskurð aflaheimilda í öðrum helstu nytjategundum en þorski. Þannig er lagt til að ýsukvótinn lækki úr 100 þús. tonnum í 83 þús. tonn, ufsakvótinn minnki úr 75 þús. tonnum í 50 þús. tonn og kvótar gull- og djúpkarfa verði samanlagt 40 þús. tonn í stað 57 þús. tonna nú.

Rétt er að nefna að sjávarútvegsráðherra fór nokkuð fram úr veiðiráðgjöf Hafró í ýsu og sérstaklega ufsa við síðustu kvótaákvörðun en tillögur stofnunarinnar nú eru eigi að síður lægri en hennar eigin ráðgjöf í fyrra hvað þessar tegundir varðar.