þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veikindi um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni

20. mars 2020 kl. 10:01

Verið er að kanna hvort covid - 19 smit er komið upp um borð í skipinu. Mynd/Óskar P. Friðriksson

17 af 26 manna áhöfn höfðu verið veikir og þar af þrír mikið veikir. Kannað hvort komið er upp covid - 19 smit - gripið til varúðarráðstafana.

Togarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 frá Grindavík er bundinn við bryggju í Vestmannaeyjum. Nokkrir úr áhöfn togarans höfðu veikst um borð og var óskað eftir lækni. 17 af 26 manna áhöfn höfðu verið veikir og þrír mikið veikir.

Fréttavefurinn Tígull.is sagði fyrst frá.

Þar segir, og er vitnað til tilkynningar frá Lögreglunni í Vestmannaeyjum (sjá neðst í fréttinni) að í gærkvöldi tilkynnti Landhelgisgæslan lögreglu að von væri á fiskiskipi til Vestmannaeyja þar sem væru talsverð veikindi um borð. Hafnarsvæðinu var lokað fyrir almenningi og fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð þegar skipið hafði lagst að bryggju um ellefuleytið en forgangsmál var að sinna sjúklingunum. Tekin voru sýni vegna COVID-19 úr 7 skipverjum og 4 skipverjar voru teknir í land og var komið fyrir í farsóttarhúsi vegna veikinda þeirra.

Aðrir skipverjar eru um borð í skipinu í svokallaðri biðkví á meðan málið er til rannsóknar og fer enginn frá borði fyrr en niðurstaða liggur fyrir.

Ekki hefur verið staðfest að veikindin stafi af smiti vegna kórónaveirunnar heldur er um varúðarráðstöfun að ræða vegna útbreiðslu hennar. Þegar niðurstaða vegna rannsóknar sýnanna liggur fyrir verða frekari ákvarðanir teknar. Skipverjarnir hafa greiðan aðgang að læknum heilsugæslunnar og er vel sinnt.

Tígull náði tali af Þórir Rúnari Geirssyni hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sem var staddur á bryggjunni og sagði hann að um varúðarráðstöfun væri að ræða vegna Covid - 19.

Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er engum hleypt að skipinu og ekki ljóst hver næstu skref verða.

Björn Halldórsson, öryggisstjóri Þorbjarnar í Grindavík, ræddi stöðuna vegna Covid - 19 í blaði Fiskifrétta á fimmtudaginn. Hann sagði að það yrði gripið til sérstakra aðgerða ef smit kæmi upp í skipum Þorbjarnar. Samneyti skipverja er náið. Samkvæmt leiðbeiningum Landhelgisgæslunnar hefur Þorbjörn dregið upp aðgerðaráætlun komi til þess að sýktur einstaklingur sé talinn vera um borð í skipi. Hann verður settur í sóttkví í skipinu þar sem hann hefur einn aðgang að snyrtiaðstöðu. Honum verður færður allur matur á einnota diskum sem hann borðar með einnota hnífapörum. Einungis einn úr áhöfninni fær það hlutverk að sinna þörfum þess smitaða. Hann fer síðan undir læknishendur þegar skipið snýr til hafnar sem leiðbeinir í samræmi við tilmæli frá Sóttvarnalækni um næstu skref.

„Við vitum það ekki eins og staðan er í dag, hvort skipta þurfi út allri áhöfninni. Við höfum leitað svara við því en þau hafa ekki borist enn. Það er ekki hægt að búast við því að svörin berist okkur á venjulegum hraða, álagið er svo mikið á heilbrigðisstéttina. Við útbjuggum stuttan spurningalista sem allir starfsmenn, allt frá forstjóra og alveg niður, þurfa að svara, skrifa undir og endurnýja vikulega. Einnig eru verktakar sem vinna fyrir Þorbjörn beðnir um að svara sömu spurningum. Spurt er hvort viðkomandi hafi verið á skilgreindu hættusvæði eða verið í samneyti við einstakling sem hefur staðfest smit. Haldið er utan um þetta rafrænt á skrifstofu Þorbjarnar og viðkomandi þarf öllum stundum hafa afrit af yfirlýsingunni á sér. Bregðist það er viðkomandi vísað frá borði,“ segir Björn í viðtalinu en staðan er nú mikið breytt.

Tilkynning lögreglunnar í Vestmannaeyjum í morgun: 

Í gærkvöldi tilkynnti landhelgisgæslan lögreglu að von væri á fiskiskipi til Vestmannaeyja þar sem væru talsverð veikindi um borð. 17 menn af 26 höfðu verið veikir og þrír mikið veikir. Hafnarsvæðinu var lokað fyrir almenningi og fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð þegar skipið hafði lagst að bryggju um ellefuleytið en forgangsmál var að sinna sjúklingunum. Tekin voru sýni vegna COVID-19 úr 7 skipverjum og 4 skipverjar voru teknir í land og var komið fyrir í farsóttarhúsi vegna veikinda þeirra. Aðrir skipverjar eru um borð í skipinu í svokallaðri biðkví á meðan málið er til rannsóknar og fer enginn frá borði fyrr en niðurstaða liggur fyrir.

Ekki hefur verið staðfest að veikindin stafi af smiti vegna kórónaveirunnar heldur er um varúðarráðstöfun að ræða vegna útbreiðslu hennar. Þegar niðurstaða vegna rannsóknar sýnanna liggur fyrir verða frekari ákvarðanir teknar. Skipverjarnir hafa greiðan aðgang að læknum heilsugæslunnar og er vel sinnt.