föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiran tefur þjálfun áhafnar

Guðjón Guðmundsson
5. apríl 2020 kl. 14:00

Stefni í stefni var sú æfing sem lögð var áhersla á í samstarfi Magna og Týs. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Æfingar á nýja Magna í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

Magni, nýr dráttarbátur Faxaflóahafna, er nú þegar farinn að sinna verkefnum þó að takmörkuðu leyti sé. Fyrir skemmstu naut súrálsskip á leið til Grundartanga og olíuskip á leið í Hvalfjörð liðsinnis þessa öfluga dráttarbáts en hann er þó ekki í fullum rekstri því þjálfun skipstjórnarmanna þurfti að slá á frest vegna kórónuveirufaraldursins.

Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, og Steinþór Hjartarsson skipstjóri voru skipstjórnarmenn á Magna við æfingar á dögunum í Sundahöfn ásamt varðskipinu Tý.

Ekkert stýri

„Við vorum að æfa okkar að tengja stefni við stefni. Við tengdum reyndar ekki en fórum alveg eins að þessu og gert er þegar skip eru tengd stefni við stefni. Það er allt öðruvísi að stýra nýja dráttarskipinu. Það er ekkert stýri og einungis skrúfurnar snúast. Þannig verður þetta allt flóknara. Hér voru Hollendingar að þjálfa okkur en þeir voru kallaðir heim. Við erum að reyna að viðhalda kunnáttunni. Helmingurinn af sex skipstjórnendum höfðu fengið tilsögn upp að vissu marki en hinn helmingurinn enga tilsögn,“ segir Gísli Jóhann.

Þótt Magni hafi þegar farið í verkefni verður hann ekki notaður stíft þar sem svo fáir eru enn með kunnáttu til að stýra honum. Verkefnin verða því valin eftir aðstæðum hverju sinni.

Magni er 32 metra langur, 12 metra breiður og með tvær 2.025kW aðalvélar (samanlagt 6.772 hestöfl). Togkraftur dráttarbátsins er 85 tonn áfram og 84 aftur á bak en það er samanlagður togkraftur allra núverandi dráttarbáta Faxaflóahafna, en þeir eru fjórir talsins. Damen Shipyards í Hollandi smíðaði bátinn í skipasmíðastöð sinni í  Hi Phong í  Víetnam.