þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veitingahúsasalan hrunin

Guðjón Guðmundsson
5. maí 2020 kl. 07:00

Flúran er sælgæti til átu og afar eftirsótt vara, ekki síst hjá veitingahúsaeigendum. Aðsend mynd

Stolt Sea Farm á Reykjanesi heldur sjó.

Á sama tíma og norska eldisfyrirtækið Stolt Sea Farm glímir við 12 milljóna dollara rýrnun í verðmætum á lífmassa á fyrsta ársfjórðungi vegna Covid-19 farsóttarinnar hefur Stolt Sea Farm,  dótturfyrirtækið á Reykjanesi, að mestu haldið í horfinu. Þar er alin senegalflúra auk þess sem þar fer fram tilraunaeldi á styrju.

Í frétt The Fish Site segir að fram komi í ársfjórðungsskýrslu móðurfélagsins að rekstrartap á fyrstu fjórum mánuðum ársins nemi 9,8 milljónum dollara en á fjórða ársfjórðungi 2019 var rekstrarhagnaður upp á 1,7 milljónir dollara.

Niels G. Stolt-Nielsen, stjórnarformaður móðurfélagsins, segir félagið fljótt hafa fundið fyrir neikvæðum áhrifum farsóttarinnar þar sem víðtækar lokanir urðu á veitingahúsum og hótelum á helstu mörkuðum félagsins á Spáni og Ítalíu.

Sigurður Helgi Ólafsson, framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm, segir starfsemina  hér heima ganga ágætlega.

60% minni slátrun

„Við vorum búnir að skera niður lífmassann hjá okkur áður en farsóttinn braust út. Við vorum í þeirri stöðu að fara að byggja lífmassann upp á ný. Af þeim sökum hefur það ekki mikil áhrif á okkar starfsemi þótt það hafi komið dálítil niðursveifla í söluna. Samdrátturinn er meiri í sandhverfu hjá eldisstöðvum Stolt Sea Farm á Spáni og Portúgal,“ segir Sigurður Helgi.

Um 220 tonn af senegalflúru eru núna í kvíum Stolt Sea Farm á Reykjanesi, þar af um 40 tonn í sláturstærð. Takmarkið er að lífsmassinn sé 250 tonn. Slátrað er tvisvar í viku. Ársframleiðslan er um 400 tonn.

„Við erum líklega að slátra um 60% af því sem við ætluðum okkur að vera að slátra um þessar mundir. Við erum því fremur ánægðir með gang mála miðað við hve útlitið virtist svart.“

Senegalflúra er „gúrmet“-afurð sem hefur gjarnan ratað í heilu lagi beint á diskinn á betri veitingastöðum í Evrópu. Nú hefur orðið sú breyting að meira magn er nú er selt til verslanakeðja á Spáni meðan sala til veitingahúsa hefur hrunið. Helsti markaðurinn fyrir stóra senegalflúru hefur verið Bandaríkin og þar hefur hægst á sölunni. Þá hefur orðið talsverð verðlækkun á afurðinni sem Sigurður Helgi segir að sé betri kostur en að safna upp birgðum.

„Við ætlum ekki að frysta afurðirnar. Við ætlum okkur að komast í gegnum þetta tímabil.“

Tilraunaeldi á styrju hefur farið fram hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi undanfarin fimm ár. Eldið er sjö ára ferli og þess vegna líklega tvö ár í slátrun. 21 starfsmaður er hjá Stolt Sea Farm. Stækkunaráform eldisstöðvarinnar hafa verið lögð á ís að minnsta kosti þar til markaðir hafa jafnað sig og heimurinn farinn að snúast með eðlilegum hætti.