miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vel rættist úr vertíðinni

Guðsteinn Bjarnason
10. september 2020 kl. 12:45

Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK að makrílveiðum í sumar. MYND/HFO

Makrílveiðar á lokasprettinum í Smugunni og næst er það síldin.

Makrílvertíð sumarsins varð nokkuð óvenjuleg en nú er kvótinn að klárast. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, kom með 1800 tonn til Neskaupstaðar á mánudag.

„Þetta leit ekkert vel út í sumar, en það rættist vel úr,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK sem kom til Neskaupstaðar á mánudag með makríl úr Smugunni.

Makrílvertíð ársins er að ljúka. Lítið er eftir af kvótanum og næst á dagskrá hjá uppsjávarskipunum er að huga að síldinni.

„Enn er eitt skip frá okkur í Smugunni, Margrét. Það er aldrei að vita nema við förum á síld næst, Börkur er farinn á síld. En þetta hefur gengið mjög vel. Við vorum með 1800 tonn núna, fínasta veiði. En það eru farnar að koma brælur núna og alltaf smá tafir út af því en inn á milli.“

Makríllinn lét lítið á sér kræla í íslensku lögsögunni þetta árið, en þá þurfti að grípa til annarra ráða.

„Já, við höfum svo sem alltaf getað gengið að honum hérna en nú er hann hættur að láta sjá sig og þá er farið stystu leið í aðra átt, í Smuguna. Þó það fari einhverjir dagar í að leita hérna heima þá er það ekkert mjög skipulagt, þannig.“

Samvinna milli skipa

Vertíðin var óvenjuleg og Tómas segir góða samvinnu milli skipa Síldarvinnslunnar í Smugunni hafa haft mikið að segja. Makríl var dælt á milli skipa eftir því sem henta þótti og siglt í land þegar aflinn var orðinn hæfilegur fyrir vinnsluna.

„Við sendum aldrei nema einn í land í einu, þannig að þetta var vel skipulagt fyrir vinnsluna. Þetta munar svo miklu að vera ekki tveir og einn að bíða í landi. Það var hægt að raða í bátana, og ef eitthvað meira er af fiski en vinnslan getur afkastað, þá er hægt að senda þá til Færeyja eða Noregs eða eitthvað. Við gerðum það, og það er bara til þess að redda kvótanum, svo maður sitji ekki uppi með neitt mikið.“

Síldarblandað í restina

Síldin var farin að láta sjá sig töluvert undir lok makrílvertíðarinnar.

„Þetta var aðeins síldarblandað núna í restinna. Við vorum komnir nálægt færeysku lögsögunni og þá var meira af síldinni með. Það var held ég 20 prósent í einu holinu, annars meira og minna makríll.“

Tómas segir makrílinn sem veiddist hafa verið góðan.

„Við fengum samt aðeins betri makríl í síðasta túr norðar í Smugunni. Það virðist sem hann sé aðeins smærri þarna sunnar.“

Prófa nýjan gagnakapal

Beitir hefur undanfarið verið að prófa nýjan gagnakapal frá Hampiðjunni sem getur flutt myndir í miklum gæðum frá trolli upp í brú. Tómas segir hann hafa reynst vel, en hugmyndin er að nýta hann í að fylgjast betur með því sem er að gerast í sjónum.

„Við erum að gera tilraunir með hann núna og reiknum með að prófa myndavél fljótlega. Það hefur verið svolitið í biðstöðu út af covid-ástandinu. En kapallinn sem slíkur er mjög góður og við reiknum með að vera með svona kapal í framtíðinni til að nota þetta mikla gagnamagn. Við erum búnir að nota hann og þetta er miklu sterkara en stálkapallinn og miklu þægilegra að vinna með þetta.“

Hafrannsóknastofnun birti í lok ágúst niðurstöður úr uppsjávarleiðangri sumarsins, þar sem fram kom að makríllinn hélt sig fjarri Íslandsmiðum þetta árið, öfugt því sem sem verið hefur í meira en áratug. Ráðgjöf fyrir næsta ár verður birt í lok september, þegar unnið hefur verið frekar úr niðurstöðunum.