fimmtudagur, 5. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Velgengni Skota í útflutningi á sjávarafurðum

17. maí 2016 kl. 14:25

Humar

60% verðmætanna verður til af útflutningi

Skotar hafa notið mikillar velgengni í útflutningi á sjávarafurðum. Tveir þriðju af öllum leturhumarafla heimsins veiðist í skoskri lögsögu og útflutningur á laxi náði hæstu hæðum árið 2014 og nam þá rétt tæplega 500 milljónum punda, tæplega 90 milljörðum króna.

En þrátt fyrir þetta er uppistaðan í mörgum kjörbúðum og veitingastöðum þar í landi innflutt fiskmeti frá Chile, Noregi eða Vietnam. Margir matreiðslumeistarar kjósa að forðast alla umræðu um uppruna hráefnisins.

Gríðarlegir flutningar fara landleiðina frá Norður-Skotlandi til meginlands Evrópu með ferskar sjávarafurðir. Samkvæmt upplýsingum frá skoska sjávarútvegsráðinu eru verðmæti sjávarafla og eldisfisks nálægt einn milljarður punda á ári. Þar af koma um 600 milljónir punda vegna útflutnings. Nú spyrja menn sig þar í landi þeirrar spurningar hvort hægt sé þróa innlendan markað fyrir skoskar sjávarafurðir í kjölfar þessarar miklu velgengni á útflutningsmörkuðum.

„Velgengi með sölu á skoskum sjávarafurðum á undanliðnum árum hefur á margan snúist um sölu á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir James Withers, framkvæmdastjóri Scotland Food & Drink, sem er hagsmunasamtök matvælaframleiðenda í Skotlandi.