sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð á sjávarafurðum í erlendri mynt mjakast upp

31. ágúst 2010 kl. 14:30

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 1,5% í júlí síðastliðnum. Þetta byggir á útreikningi IFS greiningar miðað við tölur um framleiðsluverð í júlí sem Hagstofan birti fyrir helgi.

Afurðaverð á erlendum mörkuðum hefur verið í hægu hækkunarferli  síðustu mánuðina. Nú hefur verðið hækkað um 6,6% síðustu 12 mánuði. Tölurnar undanfarna mánuði sýna að aðstæður á mörkuðum erlendis hafa náð ágætu jafnvægi. Þó er ástandið innan einstakra afurðaflokka misjafnt. Á heildina litið er afurðaverð mjög ásættanlegt fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin.

Mjölverð hagstætt

Verð á fiskimjöli er enn hátt eða 1.550 USD/tonnið. Hæst fór verðið í rétt um 2.000 USD/tonnið fyrr á árinu. Mjölverðið er hátt í sögulegu samhengi og hagstætt fyrir framleiðendur.

Verð á sjófrystum botnfiskafurðum hefur hækkað undanfarna mánuði og er nokkuð hagstætt fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin.

Verð á saltfiski hefur hækkað lítillega undanfarið. Efnahagsástand á mikilvægum mörkuðum í S-Evrópu (Spáni, Portúgal) er þó viðkvæmt.