föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð á ufsa veikist

1. september 2009 kl. 15:00

Verð á sjófrystum ufsa hefur lækkað, bæði á alaskaufsa sem vottaður er af MSC og tvífrystum ufsa frá Kína. Kaupendur halda að sér höndum og bíða og sjá hvað verða vill, að því er fram kemur á vef IntraFish.

Bandarísku ufsaskipin eru nú hálfnuð með veiðitímabil B sem stendur yfir frá miðjum júní til miðs október. Verð hjá þeim hefur lækkað frá 4.500 dollurum (567 þús. ísl. kr.) fyrir tonnið af blokk af sjófrystum ufsa niður í 4.000 dollara, samkvæmt upplýsingum frá evrópskum kaupendum.

Næstu sex mánuður munu skera úr um það hvort verðið haldist í 4 þúsund dollurum eða hvort það muni lækka enn frekar. Verð á ufsa hækkaði fyrr á árinu og er skýringin á því talin sú að ufsakvótinn var skorinn niður um 18,% í Bandaríkjunum í desember síðastliðnum en kvótinn þar er nú 815 þúsund tonn. Verðið er talið hafa hækkað of mikið á of skömmum tíma. Kaupendur kepptust við að tryggja sér ufsann af ótta við að birgðir þeirra gætu gengið til þurrðar, er haft eftir einum viðmælanda IntraFish.

Annar viðmælandi bendir á að eftirspurn eftir hrávöru hafi minnkað. Það sé ástæðan fyrir því að verðið hafi lækkað um 15%. Hann segir einnig að margir kaupendur hafi birgt sig upp af ufsa og hafi verið með allar geymslur fullar. Þeir bíði nú með frekari innkaup til að mæta fjármálakreppunni og auka sjóðstreymi. Þetta hafi leitt til verðlækkunar. Auk þess valdi heimskreppan því að allir kaupendur eru í þeirri stöðu að bíða og sjá til.

Verð á tvífrystum ufsablokkum frá Kína hefur einnig lækkað. Verð á þeim hefur fallið úr 3.500 dollurum á tonnið niður í 3.000 dollara.