þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð á fiskimjöli í hámarki

16. febrúar 2011 kl. 15:14

Ansjósa er einn mikilvægasti uppsjávarfiskurinn undan ströndum Chile og Perú.

Verð á fiskimjöli og lýsi hefur hækkað um 12-15% á ári síðustu 20 árin

Verð á fiskimjöli og lýsi er nú að slá metið sem sett var 2007. Kaupendur bjóða meira en 2 þúsund dollara (235 þúsund ISK) á tonnið fyrir mjöl og lýsi, að því er fulltrúi fiskimjölsframleiðandans Copeinca í Perú segir í viðtali við IntraFish. Copeinca er þriðji stærsti framleiðandi á fiskimjöli í heiminum.

Fram kemur að framleiðendur á fóðri til fiskeldis hafi nýlega varað við því að verðhækkanir á mjöli og lýsi, sem meðal annars eru tilkomnar vegna lélegrar ansjósuveiða í Perú, leiði til þessa að fóður fyrir eldisfiska hækki í verði.

 Eftirspurn eftir mjöli er firnasterk í heiminum í dag. Mjölið fer aðallega í dýrafóður og lýsið einnig. Eftirspurn eftir lýsi er jafnvel enn meiri því heilsuiðnaðurinn sækist í vaxandi mæli eftir vörum sem innihalda Omega-3 fitusýrur.

Talsmaður Copeinca segir að hann búist við því að verð á mjöli og lýsi muni haldast hátt út árið. Það sé í samræmi við áratugalanga þróun. Framboð á mjöli og lýsi er mjög takmarkað en eftirspurnin hefur vaxið ár frá ári með tilheyrandi verðhækkun. Þannig hefur verð á fiskimjöli hækkað í kringum 12% á ári síðustu 20 árin og verð á lýsi hefur hækkað árlega um 15%.