mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð fyrir makríl margfalt hærra í Noregi en hér

28. ágúst 2019 kl. 09:20

Munur á meðalverði á afurðum nemur hundruðum prósenta.

Verðlagsstofa skiptaverðs hefur tekið saman hráefnisverð og afurðaverð fyrir makríl á Íslandi og Noregi fyrir árin 2012-2018.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni sem birt er á heimasíðu stofunnar er að á árinu 2018 er meðalverð á öllum makríl (til bræðslu og vinnslu) 294% hærra í Noregi en á Íslandi. Minnsti munur á milli landanna á tímabilinu var árið 2014 en þá var verðið 154% hærra í Noregi.

Eftirfarandi er úr skýrslu Verðlagsstofunnar:

Makríll til vinnslu

Á tímabilinu 2012 – 2018 er meðalverð á makríl til vinnslu að meðaltali 226% hærra í Noregi. Á árinu 2018 var mesti munur og var meðalverð 277% hærra í Noregi en á Íslandi. Á árinu 2014 var minnsti munur á milli landanna á tímabilinu og var verðið 143% hærra í Noregi en á Íslandi.

Makríll í bræðslu

Á árinu 2017 er meðalhráefnisverð á makríl til bræðslu 10% hærra í Noregi en á Íslandi en það ár var minnsti munur á milli landanna á meðalhráefnisverði til bræðslu á tímabilinu. Á árinu 2018 eykst munurinn aftur og er meðalhráefnisverð til bræðslu þá 43% hærra í Noregi en á Íslandi. Yfir tímabilið er verð á makríl til bræðslu að meðaltali 21% hærra í Noregi.

Heilfrystur makríll

Meðalverð á heilfrystum makríl og hausskornum makríl flutt út frá Noregi er um 18% hærra en meðalverð á sambærilegum afurðum útfluttum frá Íslandi. Mesti munur er árið 2016 en þá er meðalverðið 27% hærra á afurðunum frá Noregi en frá Íslandi. Noregur er 10% hærri árið 2017 sem er minnsti munur á tímabilinu.

Makrílflök

Meðalverð á makrílflökum flutt út frá Noregi er að meðaltali 51% hærra en á makrílflökum sem flutt eru út frá Íslandi. Mesti munur er árið 2018 en þá er meðalverð 62% hærra á norskum afurðum.

Verðupplýsingar makríls á Íslandi voru unnar upp úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum innsendum af aflakaupa til Fiskistofu. Aðeins voru notaðar upplýsingar frá fyrirtækjum á Íslandi sem kaupa afla (hráefni) í beinum viðskiptum af innlendum skipum og sem reka landvinnslu og bræðslu.

Verðupplýsingar fyrir makríl í Noregi byggjast á upplýsingum frá Norges Sildesalgslag og eiga við um norsk skip sem landa makríl til frekari vinnslu eða bræðslu í Noregi.